Mamma, sem bæði er með sykursýki og hjartveiki á háu stigi og fer helst ekki úr húsi allt árið, breytir alveg um persónuleika í desember. Hún skreytir greinar og býr til jólaskreytingar handa liðnum og lifendum og svo þarf að koma herlegheitunum á leiðin eða heim til þeirra sem enn tóra.
Útkeyrsla á þessum afurðum kom í minn hlut í gær. Gamla konan vill að sjálfsögðu koma með, sem er líka nauðsynlegt því ég veit ekkert hvar allt þetta fólk er niðurkomið. Við byrjuðum í Fossvoginum og gekk vel framan af. Svo fór þetta að verða örvæntingarfull leit að leiðum á merktum götum sem eru allar eins. Það hafðist þó fyrir rest.
Hún var líka með skreytingar handa hinum og þessum kerlingum og körlum og allt býr þetta fólk úti á landi.
Fyrst var það Garðabær.
"Veist þú ekki hvar þetta er," spyr hún í forundran þegar ég spyr hvert við ætlum.
"Nei, ég rata ekkert í Garðabæ."
"Það er áreiðanlega í þessa átt," segir hún og bendir, en tilfinningin segir mér að það sé akkúrat öfugt. Enda erum við rammvilltar í Garðabænum í hálftíma þangað til við finnum götuna.
"Það er þarna" segir hún glöð og bendir á blokk sem ég að sjálfsögðu snarast inn í og rýni á allar bjöllurnar.
"Það er ekki þarna," segi ég þegar ég kem aftur út í bíl.
"Þá er það þessi," segir hún og bendir á aðra blokk.
Eftir nokkrar svona fýluferðir hringi ég á 118 og fæ að vita húsnúmerið.
Þá er það Grafarholt.
"Þú hefur áður keyrt mig þangað," segir hún vongóð. "Þú veist hvar þetta er."
"Mamma, það var í fyrra og ég hef ekki klúu."
Svo finn ég samt götuna og spyr númer hvað.
"Ég veit það ekki," segir hún, "manstu virkilega ekki hvar þetta er?"
Niðurtalning og æðruleysi. Ég missi mig ekkert. Og aftur 118. Á endanum er allt komið þangað sem það á að fara. Ferðin tók rúma fjóra tíma. Þetta tilheyrir.
Jól eru fyrir börn og gamalmenni.
Ég dáist svo að krökkunum okkar sem láta sig hafa það að trúa á jólasvein sem engin leið er að henda reiður á, enda jólasveinahefð á Íslandi loðnari en orð fá lýst.
Búa þeir í Esjunni? Ekki kaupa börn í Vestmannaeyjum það. Þau kveðja Grýlu og jólasveinana á Þrettándanum og horfa á eftir þeim halda í átt að heimili sínu í Helgafelli.
Og búa jólasveinar á Norðurlandi í Esjunni?
Það þarf ekki að segja mér að nokkur Akureyringur samþykki það.
Er eitthvað sem bendir til að jólasveinar séu með dótafabrikku í einhverju fjallanna? Af hverju eru þeir á jólaböllum hist og her áður en þeir eru komnir til byggða?
Og hvað með gömlu jólasveinana, pörupiltana og þjófana sem við viljum endilega að börnin okkar þekki líka. Þetta er alveg glórulaust.
En nú er þetta að bresta á allt saman og ég óska lesendum eyjunnar gleðilegra jóla.
sunnudagur, 23. desember 2007
Sikksakkað í leit að leiðum og loðnar jólasveinahefðir
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 10:41
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli