Skelfileg synd hversu margir fengu jólagjafir sem þá langaði ekkert í. Maður á bara að gefa þeim sem standa manni næst, þá þekkir maður nógu vel til að vita að minnsta kosti hvað þeir vilja ekki. Þegar ég sagðist vera búin að kaupa allar Stiklurnar og diskinn með Geir Ólafssyni handa elsta syni mínum varð hann nánast fornermaður og spurði hvort ég ætlaði að svíkja hann um hamingjubókina eftir Þorgrím Þráins.
Ég er persónulega mjög lukkuleg með mínar gjafir, en jafnvel þó ég hefði ekki verið það hefði ég ekki nennt í biðröð til að skipta. Á ekki orð yfir þetta fólk alltsaman sem er nýsloppið úr jólaösinni en getur ekki beðið eftir næsta skammti á janúarútsölunum.
Talandi um jólagjafir þá verð ég að deila því með ykkur þegar ég ætlaði að sækja son minn (á fertugsaldri) á aðfangadagskvöld þar sem hann var staddur hjá tvíburabróður sínum.
Ertu að koma strax? spurði hann og ég heyrði angistina í röddinni.
Já, sagði ég, er það ekki allt í lagi?
Nei, við erum nýbyrjaðir að setja saman bílabrautina.
Þegar ég kom seinna um kvöldið var bílabrautin tilbúin og drengirnir sem áttu hana löngu sofnaðir. Pabbinn og frændinn hinsvegar ljómuðu eins og sólir þar sem þeir léku sér á gólfinu. Á öðru heimili sem ég þekki vel til fengu börnin leikjatölvu, en foreldrarnir og frændfólk sem býr þar yfir hátíðarnar hefur ekki litið upp síðan á aðfangadagskvöld. Þau eru í badminton, keilu og guð má vita hverju á tölvunni meðan börnunum sem eiga hana er bandað frá í óþolinmæði.
Getið þið ekki farið út að leika, krakkar? spyr fullorðna fólkið sem er búið að stórslasa sig hvað eftir annað í einhverjum Nintendo Vii-tölvuleikjum.
Dóttir mín fékk dagatal með myndum af David Hasselhof, það var innahússdjókur sem vakti mikla kátínu systkinanna en ég var ekki almennilega innvígð í það. Sjálf fékk ég dagatal frá vinkonu í Finnlandi, New York Firefighters, gríðarlega flottir karlmenn á hverri síðu og fannst það mjög fyndið!!!
Ég las bakþanka dr. Gunna í Fréttablaðinu í gær að mig minnir, þar sem hann kvartar yfir leikfangaumbúðum sem séu ekki á færi nema handlögnustu manna. Ég verð að leggja örlítið í það tuðpúkk því mér blöskruðu akkúrat umbúðirnar utan um allt dótið. Til dæmis var í einum risastórum kassa læknataska og læknadót sem hefðu rúmast í fimm sinnum minni pakkningu.
Að öðru. Ég verð alltaf soldið mikið glöð í hjartanu þegar fólk sem ég held að sé með allt á hreinu viðurkennir að það skilur ekki plottin í viðskiptalífinu. Þóra Kristín og Mikki Torfa ræddu þau mál í Kastljósi í gær og ég var svo fegin að heyra að þau botna hvorki upp né niður í Rei-dæminu öllu. Það geri ég ekki heldur. Svo verð ég að dást að Bubba með stórsveitinni þó hann hafi verið pínulítið svona eins og skopútgáfa af sjálfum sér, leikinn af Ómari Ragnarssyni. En flottur, alltaf flottur...
föstudagur, 28. desember 2007
Látiði dótið vera, krakkar, pabbi og frændi eru að leika...
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 11:03
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Já ég þarf einmitt að skipta ýmsu en Hoffaranum skipti ég ekki, hann fær sitt heilaga pláss á stofuveggnum, þvílíka hönkið !!
SvaraEyðaEn ég ætti kannski að fá þessa bílabraut lánaða hjá Jóa bróðir þannig að ég og Anna Lilja getum haft tölvuna í friði fyrir strákunum og varðandi krakkana þá kom þessi snjór á hárréttum tíma. VIð hendum þeim út á sleða og opnum ekki fyrir þeim fyrr en um háttatíma. Lífið er Vii, það er bara þannig!
Kossar og knús !