sunnudagur, 2. desember 2007

Af tilhleypingapartýjum og pólitískri rétthugsun

Ég er komin með barkabólgu af dönsku eftir að hafa verið bílstjóri danskra vina foreldra minna í þrjá daga. Ég rembist við að bera dönskuna fram með tilheyrandi kokhljóðum og skil ekkert í mér að tala ekki sænsku frekar, þau skilja hana ekkert síður.
Já, og hæ. Ég er sumsé komin með bloggið mitt á eyjuna þar sem ég býst við að verða tekið með tilheyrandi lúðrablæstri og fagnaðarlátum.

En aftur að dönsku gestunum, herra og frú Petersen. Þau hafa komið hingað skrilljón sinnum áður og telja nú trúlega að hver fari að verða síðastur að hitta mömmu, sem er gömul og lasin. Þau búa á Kabin-hóteli og af því einmitt þau hafa komið svo oft áður er ekki nauðsynlegt að þvæla þeim í bíltúra um allar trissur.

Og rétt þegar ég hélt að fólk gæti ekki lengur komið mér óvart kemur í ljós að frú Petersen er að safna umslögum utan af fjölnota lyfseðlum!!??? Mér tókst að grafa upp þrjá og og lýg því ekki, hún hefði ekki verið glaðari þó ég hefði afhent henni afsal að Magasin du Nord og öllu heila klabbinu og sent hana með handritin til baka að auki.

Í gærkvöldi stimplaði ég mig svo út af Danavaktinni og fór í árlegt tilhleypingapartý til klerksins í Óháða. Hann efnir til þessara teita af hjartans einlægni og ég spurði hann fyrir partý hvort þarna væri virkilega fullt um fína drætti og hvort bankabækur, hlutabréfaeignir og annað smálegt lægi frammi, svona rétt svo maður vissi að hverju maður gengi.

Hann hélt nú það en svo klikkaði klerkurinn á þessu. Þarna var hins vegar fullt af áhugaverðu fólki og óhætt að segja að hjá Pétri eigi gömlu sannindin við; að kristilegu blómin spretta, kringum hitt og þetta. Annars vogar maður sér ekki að minnast á kristindóm á opinberum vettvangi og þrætir blákalt fyrir að hafa keypt bleikt handa ömmustelpunum tveimur sem á meira að segja að skíra í desember. Úps!

En ég fór semsagt ein heim úr þessu ágæta partýi, enda hefur það komið fram í fyrri færslum að kannski á ég þegar elskhuga og á þar af leiðandi ekkert erindi í svona partý.

Nú er hins vegar komið að því að sinna Dönunum enn á ný. Þeir halda heimleiðis snemma í fyrramálið en fá að sjálfsögðu almennilegt kveðjuteiti í kvöld þar sem pólitísk rétthugsun verður rædd í þaula. Ingelise er nefnilega afar mikið niðri fyrir þegar kemur að innflytjendamálum og ég myndi ekki einu sinni þora að hafa eftir henni yfirlýsingarnar, hvað þá að ég þyrði að viðurkenna að stundum finnst mér hún hafa nokkuð til síns máls. Men, paa gensyn...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli