mánudagur, 31. desember 2007

Tvö og hálft bónorð og kastalabrúðkaup

3. janúar.
Jól og áramót liðin og líðanin fín. Að undaskildum afleiðingum ofáts, sem eru fastir liðir eins og venjulega. Aðfangadagskvöld var yndislegt og Elías, nú tilvonandi tengdasonur, bað dóttur minnar Höllu með viðhöfn. Hún játaðist honum umsvifalaust. Unaðsleg stund.
Á annan í jólum komu tengdaforeldrar Önnu dóttur minnar til landsins til að vera við skírn barnabarnsins og upplifa af eigin raun geðveiki áramótanna í þessu undarlega landi.
Skírnin fór fram í heimahúsi (hjá Höllu og Elíasi) og Pétur í Óháða skírði. Enn önnur falleg stund. Eftir skírnina þurfti klerkurinn að bregða sér frá og þegar hann kom aftur var það ég sem fór til dyra. Þá bar svo við að klerkur var ekki einn heldur stóð við hlið hans maður sem hann sagðist hafa pikkað upp á leiðinni og væri einn af þeim sem ekki hefðu komist í árlegt tilhleypingapartý í desember.
"Ertu sem sagt að koma með hann handa mér?" spurði ég.
"Já, er það ekki alveg upplagt," svaraði klerkur.
Þeir voru leiddir til stofu og bornar kræsingar og ég kynnti ókunna manninn (sem ég man ekki lengur hvað heitir) fyrir börnum, tengdabörnum og fyrrverandi, og sagði þeim sem væri, að presturinn hefði fært mér manninn til að giftast honum 7.9.'13. Það hefði lengi verið díll milli mín og Péturs að hann fyndi handa mér mannsefni til að giftast þennan dag.
Ókunni maðurinn var að vonum var um sig þó hann svaraði spurningum allra eftir bestu getu.
"Og er þá kannski í lagi að ég byrji bara að kalla þig pabba?" spurði skeggjaði sonurinn og maðurinn varð grænn í framan af skelfingu og svelgdist rosalega á rjómatertunni.
Við fórum flissandi út að reykja en ég er handviss um að maðurinn hefur þurft áfallahjálp.
Á gamlársdag horfði ég á kryddsíldina og fannst hún frekar daufleg, og svo var áramótafagnaður í Breiðholtinu. Þá gerði Chris, nú tilvonandi tengdasonur, sér lítið fyrir og bað Önnu með viðhöfn. Hún játaðist honum með tárin í augunum. Það voru svo sem allir með tárin í augunum fyrir hönd krakkanna, sem nú eru að plana systrabrúðkaup í kastala á Írlandi!!!!
Bretarnir verða hér í nokkra daga í viðbót og Bláa lónið og Strokkur hinn gjósandi eru á óskalistanum. Ég mun reyna að sinna því.
Ætla að prófa að setja hér inn nokkrar myndir, efsta myndin er af bræðrunum í bílaleik á aðfangadagskvöld, svo eru myndir af skírn og bónorðum.
Lesendum óska ég gleðilegs nýs árs.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli