þriðjudagur, 29. apríl 2008

Hvít dúfa á grænu ljósi


Hún er svo ljúf þessi borg.

Sérstaklega þegar siestan er búin og menn eru í rólegheitum að opna verslanir á ný, veitingamenn að færa til sólhlífar og alls staðar heyrist lágvær kliður og hlátur. Borgir hafa misjöfn hljóð og þessi er sérstaklega lágvær.
Höfgin sem færist yfir er hreint engu lík.

Þrátt fyrir að túristahópum hafi fjölgað mjög síðustu daga vegna hátíðahaldanna eru aldrei nein læti.

Japönsku hóparnir eru fyndnastir, ég veit ekki af hverju, þeir eru bara svo skondnir þegar þeir tifa í takt á litlu fótunum sínum.

Það er okkur Alfonso afar mikilvægt að vera ekki tekin sem túristar, við búum sko hér.

Ég geng frekar 20 kílómetra auka þegar ég villist en að spyrja til vegar og svona rigsa frekar en geng:)

Áðan, þegar ég sat á kaffihúsi á götuhorni, kjagaði hvít dúfa yfir gangbrautina á grænu. Og svo aftur til baka.

Ég veit ekki hvort hún er svona vel að sér í umferðarreglunum eða finnst bara gaman í hópgöngu á sebrabrautum. Hún fékk að minnsta kosti hálft brauðið mitt fyrir framlagið.

Ég lét lita á mér augabrúnirnar áðan um leið og ég fékk klippingu. Hárgreiðslustúlkan kom með litaspjald og ég benti á brúnt.

Hún makaði svo á mig brúnu sem hún þvoði í burtu korteri seinna. Engin plokkun og ekkert, svo ég er heldur grimm ásýndar. So.

Var ótengd í dag og fegin að vera komin í samband aftur.
Set inn eina letilega síðdegismynd og sendi ástarkveðjur heim.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli