þriðjudagur, 29. apríl 2008

Hvít dúfa á grænu ljósi


Hún er svo ljúf þessi borg.

Sérstaklega þegar siestan er búin og menn eru í rólegheitum að opna verslanir á ný, veitingamenn að færa til sólhlífar og alls staðar heyrist lágvær kliður og hlátur. Borgir hafa misjöfn hljóð og þessi er sérstaklega lágvær.
Höfgin sem færist yfir er hreint engu lík.

Þrátt fyrir að túristahópum hafi fjölgað mjög síðustu daga vegna hátíðahaldanna eru aldrei nein læti.

Japönsku hóparnir eru fyndnastir, ég veit ekki af hverju, þeir eru bara svo skondnir þegar þeir tifa í takt á litlu fótunum sínum.

Það er okkur Alfonso afar mikilvægt að vera ekki tekin sem túristar, við búum sko hér.

Ég geng frekar 20 kílómetra auka þegar ég villist en að spyrja til vegar og svona rigsa frekar en geng:)

Áðan, þegar ég sat á kaffihúsi á götuhorni, kjagaði hvít dúfa yfir gangbrautina á grænu. Og svo aftur til baka.

Ég veit ekki hvort hún er svona vel að sér í umferðarreglunum eða finnst bara gaman í hópgöngu á sebrabrautum. Hún fékk að minnsta kosti hálft brauðið mitt fyrir framlagið.

Ég lét lita á mér augabrúnirnar áðan um leið og ég fékk klippingu. Hárgreiðslustúlkan kom með litaspjald og ég benti á brúnt.

Hún makaði svo á mig brúnu sem hún þvoði í burtu korteri seinna. Engin plokkun og ekkert, svo ég er heldur grimm ásýndar. So.

Var ótengd í dag og fegin að vera komin í samband aftur.
Set inn eina letilega síðdegismynd og sendi ástarkveðjur heim.


mánudagur, 28. apríl 2008

Segðu það með blómum...




Nokkrar stemmningsmyndir frá hátíðinni í gær. Dásamlegt:)

Sat sú gaml'upp á þaki og spilaði og söng...

Já, já, þá er maður farinn að pósa hálfnakinn í Spiderman-sundlaugum í útlöndum.
Það gekk stórslysalaust að blása laugina upp, þeir gerðu það á tíu mínútum á veitingastaðnum hans Miguel.
Það var hinsvegar doldið mál að fylla hana af vatni þó hún sé ekki mjög stór. Við Alfonso fórum með margar fötur upp marga stiga, en nú er líka allt annað að sóla sig á þakinu.

Ég er eftir mig eftir hátíðahöldin í gær, blómahátíðin mikla hófst með mikilli viðhöfn og tugir skreyttra vagna óku um göturnar fullar af fólki sem spilaði, dansaði flamengo og klappaði eins og Spánverjum einum er lagið.

Það var ekki leiðinlegt að vakna hér snemma á sunnudagsmorgni og taka þátt í gleðinni. Þegar vagnarnir fóru af stað upphófst mikill blómabardagi, kallaður Battles of the Flowers. Þeir sem sátu í vögnunum hentu blómum í fólkið sem safnaðist á götunum, sem lét svo ekki sitt eftir liggja í blómakastinu.
Margar af senjórítunum voru vel við aldur og máttu muna sinn fífil fegri, minntu jafnvel frekar á konur kenndar við annarskonar gleði en blómakast. Stríðsmálaðar í hitanum (farðinn var svona soldið hér og þar) stóðu þær glaðbeittar á vögnunum með sígarettur í öðru munnvikinu og fangið fullt af blómum, ólýsanlega flottar.
Svo tók við skemmtun á sviði og hátíðahöldin halda áfram allan maí.
Það hefur gengið erfiðlega að setja inn myndir, nú fæ ég ekki fleiri myndir inn svo ég ætla að prófa nýja færslu.

föstudagur, 25. apríl 2008

Að missa sig komplítlí í útlöndum

Eftir vinnu í dag slóst ég í för með fóstursyninum Alfonso, sem átti stefnumót við mann á kaffihúsi hér uppi í gamla hverfi.

Það var sjötíu stiga hiti eða fimmtíu eða eitthvað og við k0mumst hvorki lönd né strönd á þröngum götunum fyrir túristahópum sem komu eins og skriðufall á móti, eltandi rauða fána eða grænar húfur.
Þegar við loksins komumst á kaffihúsið hlömmuðum við okkur niður í skugganum og ég kveikti mér í sígarettu.

Karlinn á næsta borði fór strax að hósta og starði á mig manndrápsaugnaráði. Stuttu seinna tók kerlingin hans undir. Ég þekkti strax týpurnar, arrogant frekjudallar, og sagði vði Alfonso að ef kallinn andaði út úr sér einhverju um reykingar fengi hann fingurinn.

"Þú myndir aldrei gera það," sagði Alfonso.
"Ó, jú," sagði ég.

Hóstakjöltur hjónanna hélt áfram og svo kom það:
"Það er ótrúlegt tillitsleysi að reykja þar sem fólk ætlar að borða," sagði karlinn.
Og fékk fingurinn.

Alfonso varð kríthvítur í framan þegar hjónin stóðu upp og strunsuðu í burtu en mér var alveg sama. Ég þoli ekki þennan reykingafasisma, það er nóg af stöðum fyrir reyklausa að éta á.
Á sígarettuveskinu mínu stendur Hard Boil og ég var það sannarlega í dag.

Alfonso hinsvegar hringdi og frestaði stefnumótinu við vin sinn og sagði að nú færum við í mollið.
"Mollið?"
"Þú ert greinilega í þann veginn að fá sólsting," sagð Alfonso, "og nú förum við í mollið og kaupum sundlaug á þakið."
Eins og mollið sé staður fyrir fólk sem er að fá sólsting, sérstaklega ef það hefur ímugust á mollum.
Ég tuðaði alla leiðina í mollið, en Alfonso lét sem hann heyrði það ekki.
Þegar til kom var mollið öruggasti staðurinn til vera á í Cordoba í dag.
Inni var svalt og fáir á ferli.

Við fjárfestum í Spider-man-laug á tilboði, en glætan að ég geti blásið ferlíkið upp þrátt fyrir ættir norður í Þingeyjarsýslu.
Ég ætla með laugina á restaurantið til Miguel í kvöld og efna til samkeppni meðal fastagestanna. Þeir sem eru duglegastir að blása fá verðlaun. Þeir fá að kæla sig í lauginni á þakinu einu sinni á dag.

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Fannst engum neitt athugavert við þetta?

Ég er ekki vön að blogga við fréttir og allra síst mínar eigin, en nú ætla ég að gera undantekningu. Á eyjunni í gær birtist frétt um að 131 einstaklingi með Downs heilkenni hefði verið eytt í Danmörku árið 2005. Enn voru engar tölur um árin á eftir, en tóninn í fréttinni var að þetta væri ótrúlega góður árangur!!!

Ég fékk bágt fyrir að nota orðið mongólíti og hef beðist afsökunar á því. Það breytir ekki því að ég er miður mín yfir þessum hugsunarhætti og þessari þróun. Sjálf hef ég ekki kynnst þroskaheftum fyrr en fyrir fjórum árum að ég kynntist dóttur vinkonu minnar, Vöku, sem þær mæðgur kalla reyndar báðar mongólíta.
Hún er í einu orði sagt yndisleg.

Auðvitað er það draumur allra að eignast heilbrigð börn, en eins og framtíðin "tegner sig" er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Ekki bara af gróðurhúsalofttegundum, styrjöldum, græðgi og hungursneyð, heldur hvert hinn vestræni heimur stefnir tæknilega.

Það á að steypa alla í sama mótið, "normið" verður alltaf þrengra. Ég sé fyrir mér eftir fjórar, fimm kynslóðir að allir gangi um í kyrtlum eins og í vísindaskáldsögu og einhverskonar yfirstjórn ákveði hverjir fæðist og með hvaða hæfileika.

Af tvennu illu vona ég að við verðum búin að tortíma jörðinni áður en til þess kemur.

Persónulega er ég óvirkur alkólisti með þunglyndistendensa og kvíðaröskun, plús að vera alveg úti á túni í fjármálum. Ég þekki fullt af breysku fólki sem er hvert öðru yndislegra, en okkur hefði örugglega öllum verið eytt.

Það gerði enginn athugasemd við þessa frétt, enda sýnist mér oft að athugasemdirnar séu í neikvæðari kantinum. Ef hægt er að hanka einhvern á þýðingarvillu verða menn óstjórnlega glaðir og gera athugasemdir hver um annan þveran, innihaldið skiptir minna máli.
Varð að fá útrás fyrir þessa þanka, en fer nú og kaupi barnalaug á þakið.

Alfonso sá Walt Disney-laugar fyrir fjórar evrur í búð ekki langt frá. Kannski ég misbjóði lesendum næst með myndum af okkur í busllaugunum:)

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Hið daglega actionary




Þar kom að því að frúin fékk að reykja nægju sína. Við Alfonso fórum á arabískt tehús og fengum okkur kókoste og hookka-pípu með mangóbragði. (Hann er frá Mexíkó og kallar þetta hookka.) Set inn mynd svo þið sjáið nautnasvipinn. Þaðan fórum við svo í sextugsafmæli til Miguels. Gamla kempan lék á als oddi og allir skemmtu sér konunglega.

Spænskan mín er samt ekki að gera sig. Alfonso kennir mér tíu orð á dag en það dugar skammt.
Í dag brá ég mér inn þar sem mér sýndist vera snyrtistofa, að minnsta kosti var þar fullt af snyrtivörum og fimm afgreiðslustúlkur og einn afgreiðslumaður.

Erindið var að athuga með fastan lit á augabrúnirnar. Enginn talaði ensku svo ég lék augnabrúnalit eins og ég lifandi gat - með engum árangri.

Ég lék þetta alveg ágætlega og krakkarnir mínir hefðu verið löngu búnir að fatta, en afgreiðslufólkið þarna var svona rosalega lélegt að giska.
Það er kannski ekki að marka krakkana mína því þau eru með ólíkindum snjöll í actionary.
Halla fattaði til dæmis á þremur sekúndum þegar Jóhann lék rjómabollu, og svo mætti lengi telja.

Svo ætla ég ekki að tíunda einu sinni enn hvernig ég villist alltaf í útlöndum, en í dag þegar ég var búin að fara í súpermarkaðinn og kaupa tvo lítra af vatni, tvo lítra af ávaxtasöfum, einn lítra af mjólk ásamt hinu og þessu smálegu ákvað ég að fara aðeins lengri leið heim en ég var vön.
Ég gekk linnulaust með innkaupin í rúma tvo klukkutíma, göturnar þröngu eru eins og völundarhús og enda allar með gamalli kirkju á horninu og apóteki beint á móti. Þannig er nú það.

sunnudagur, 20. apríl 2008

Sólin skín og skín og skín


Set hér inn nokkrar línur því ég þoli ekki villur í fyrirsögnum, en kemst ekki inn á bloggið mitt frá því í gær til að leiðrétta.

Vaknaði við kirkjuklukkur og fuglasöng í morgun og sólin skín og skín og skín eins og segir í kvæðinu.

Mynd sem átti að fylgja bloggi gærdagsins fer inn í dag.

Þegar ég leigði þessa aðstöðu hérna var lögð mikil áhersla á að þakið tilheyrði mér.

Ég skildi það þannig að ég hefði þar sólbaðsaðstöðu, en ekki að þakið kæmi niður í herbergi til mín í hvert skipti sem rignir:)
Við höfðum það fínt í rigningunni í gær við Alfonso og hann er ótrúlega happy að ég skuli vilja vera fósturmamma hans. Þegar ég sýndi honum myndir af "systkinunum" á Íslandi varð hann ægilega glaður og bað fyrir kveðju.
Annars er hann mexíkóskt einkabarn og mamma hans ætlar að heimsækja hann hingað í næstu viku.
Alfonso er hér í verkefni fyrir National Geography, en hann býr í London.

laugardagur, 19. apríl 2008

Loftflygsurnar fljóta í pollum

19. apríl.

Það var laka- og teppadagur í gær, úrhellinu linnir ekki og ekkert hægt að gera nema lesa og éta súkkulaði.

Mér er búið að vera skítkalt undanfarna daga, sérstaklega á næturnar.

Ég byrjaði með eitt lak og tvö teppi og engin náttklæði frekar en venjulega. Nú er ég komin í tvö lök og fimm teppi og sef í bol!!!!

Gamla konan jarmar meira í rigningu en góðu veðri, hún er ekki níræð eins og ég hélt heldur 98 ára. Það er eins og heil kindahjörð hér á neðri hæðinni, en aumingja Pilar (dóttirin) vakir yfir henni dag og nótt. Þó gamla konan þekki ekki Pilar nema stundum varð hún alveg stjórnlaus þegar hún var lögð inn á sjúkrahús og Pilar hafði ekki hjarta í sér til að skilja hana eftir.

Ég sé að Glitnismenn eru á kampavíns- og styrjuhrognaflippi í Cannes. Grey þeir.

Það er langt síðan mér fór að verða ómótt í hvert skipti sem ég heyrði nýjar fréttir af forríka liðinu, nú haggast ég ekki. Stundum er geðveikin slík að maður getur ekki einu sinni haft á henni skoðun.

Við Alfonso ætlum að hafa það huggulegt í dag, hann fór í úrhellinu og keypti súkkulaði og snakk og ætlar að sýna mér myndir frá hjálparstarfi sem hann hefur tekið þátt í í Afríku og Suður-Ameríku. Ég ætla að sýna honum myndir af Íslandi og fjölskyldunni minni heima sem ég sakna stundum svo rosalega að mig beinlínis verkjar.

En ég vildi þetta sjálf og það er ekki bæði haldið og sleppt.

Til skýringar þá er Alfonso hinn leigjandinn hérna, 31 árs og eins og fyrr segir genginn mér í sonarstað. Með myndunum og namminu ætlum við að hafa Presley og Cohen.

Set inn nokkrar myndir af nýjustu lekastemmningunni. Ég hef furðað mig á því frá því ég kom að í herberginu er stór vatnskútur hálffullur af sandi. Ég hélt kannski að þetta væri eitthvert spænskt innanhússkraut sem ég bæri bara ekki skynbragð á en nú hefur runnið upp fyrir mér ljós. Fyrrverandi leigjandi hefur notað þetta til að loka svalahurðinni. Brilljant og hefur komið sér vel í vindrokunum undanfarið þegar allt fer á fleygiferð.





föstudagur, 18. apríl 2008

Enga ellismellabelli



Ég verð að deila þessu skemmtilega orði með ykkur, meira að segja í fyrirsögn, þó ég geri ráð fyrir að mínir frómu samstarfsmenn á eyjunni muni gnísta tönnum.

En þetta var sumsé ráðlegging sem ég fékk í tölvupósti frá kærum vini.


Ég var að hugsa um að skrifa hér smá hugleiðingu um ástina. Hún hefur verið mér hugleikin upp á síðkastið af því ég er svo botnlaust ástfangin af ástinni.

Þegar ég er ein í útlöndum skoða ég fólk.

Ég sit á kaffihúsum og er hugfangin af því að skoða fólk.

Það sem mér þykir dapurlegast er að pör, að ég tali nú ekki um miðaldra hjón, sitja oftar en ekki þegjandi og glápa út í loftið. Það er engin gleði eða eftirvænting í svipnum, ekkert hlegið, allt gamall og kikklaus vani.

Ég veit að í flestum tilfellum ríkir vinátta og væntumþykja í þessum samböndum sem er fínt.

Og þó kerlingarnar séu margar skelfilega rotinpúrulegar vorkenni ég þeim samt að þurfa að vakna hjá körlunum sem þær eru með á hverjum morgni.
Svo er svo margt furðulegt.

Eins og hjónin sem sátu á næsta borði við mig á ströndinni í Torremolinos. Þau voru um fertugt með tvo syni á táningsaldri með sér.

Sá yngri var svo örmagna að hann lá með ennið á borðinu allan tímann og sagði ekki orð. Hjónin ræddu ekki mikið saman, en fjölskyldan var kappklædd, frúin í sokkabuxum undir buxunum og allir í peysum og úlpum.

Hvað var það í sól og 27 stiga hita?


Eftir að við Alfonso urðum svona góðir vinir hef ég kynnst urmul af fólki. Hann talar náttúrlega spænsku og ensku og við þvælumst saman um allt og eigum okkur uppáhaldsstað sem er Cruz del Rastro, tapasbar hérna niðri á horninu.

Þar ræður ríkjum eigandinn og kokkurinn Miguel sem er ótrúlega merkilegur maður sem ég ætla að taka viðtal við þegar færi gefst.

En hann hefur tekið slíku ástfóstri við mig að það hálfa væri nóg.

Barþjónninn er látinn spila í gítar í hvert skipti sem mig langar að heyra tónlist, hver exótíski rétturinn á fætur öðrum er borinn á borð fyrir mig og Miguel segir eins og Spánverja er siður að ég sé ómótstæðileg og hann rómantískari og yndislegri en aðrir menn.

Ég er hinsvegar ekki að leita að manni.

Það rignir yfir mig tölvupóstum frá Antonio (Fernando) sem langar svo ægilega að fara með mig í bíltúr. Smá rúnt og ís á eftir geri ég ráð fyrir.

Þetta kitlar allt, en heillar ekki.

Ég fór hins vegar og keypti mér safndisk með Presley, eingöngu ástarlög, og er heillum horfin þegar ég ligg hér í kertaljósunum og hlusta á Elvis. Mellankólsk og ástfangin af öllum mönnunum sem ég hef verið ástfangin af í gegnum tíðina.


Svona rétt í lokin: Það ausrigndi í nótt og heilu flygsurnar úr loftinu flutu í pollum á gólfinu þegar ég vaknaði. Ég haggaðist ekki og nú er komin sól svo vandamálið er úr sögunni. Svona er maður fljótur að aðlaga sig.

Ég ætla að setja inn myndir af ánni sem er svo rómó að horfa á með fljótandi ljósum alla leið að rómönsku brúnni, og mér og Miguel að sjálfsögðu.








miðvikudagur, 16. apríl 2008

Ítalska mafían, góðan daginn

16. apríl.


Það er hálfspældur bloggari sem bloggar frá Spáni núna.

Ég var auðvitað sannfærð um það í Torremolinos að ég hefði bruðlað með peningana en það kom í ljós að hraðbankinn á horninu, þar sem ég tók einu sinni út pening, var glæpahraðbanki. Ég var ekkert búin að eyða svona miklu.


Glöggur bankastarfsmaður hringdi í mig og spurði hvort ég væri á Spáni óg Ítalíu sama daginn. Einhver hafði tekið út af kortinu 600 evrur á Ítalíu. Helvítis mafían.


Svo eru bílakaup sem áttu að ganga greiðlega fyrir sig heima í einhverri hönk svo ég er í fýlu út af því.


Fernando (sem kemur í ljós að heitir Antonio, hann sagði mér að pabbi hans héti Fernando þegar ég var að útskýra fyrir honum íslensk eftirnöfn) sagði mér að nokkrir hótelgestir hjá þeim hefðu lent í þessu, en ég hafði enga trú á að svona nokkuð henti mig.


Ekki frekar en ég bjóst við að fá fuglaflensu og verða fyrst Íslendinga til að deyja úr sjúkdómnum.

Ég gleymdi nefnilega að segja ykkur það.


Í morgunmatnum á Torremolinos kom ég niður einn daginn alveg banhungruð og hrúgaði á diskinn spældu eggi, fleski, baunum og tilheyrandi, raðaði þessu öllu upp á gaffalinn, tuggði og kyngdi.

Græðgin ríður jú ekki við einhleyping.

Nema hvað, eggið var fúlt og baneitrað og ég er viss um að hænan sem verpti því valt örend á hliðina að varpinu loknu. Nú eru hún hinumegin hænsnamóðunnar miklu þar sem ríkir heiðríkjan ein og fuglaflensa þekkist ekki og skilur mig eftir í súpunni. Ég var að ropa þessu upp í tvo daga, en er að öðru leyti einkennalaus ennþá.
Læt vita þegar líður nær lokunum.


Og elsku vinkona "hke", þú sérð að ég mun ekki bresta í Abba-söng fyrir Fernando sem er ekki einu sinni Fernando. Mér er óhætt í bili.


Alfonso hérna hinumegin við ganginn er genginn mér í sonarstað. Hann varð svo hrifinn af hvað ég var búin að gera kósý í herberginu mínu að hann fór og keypti hellur í "eldhúsið" og vill nú sífellt vera að elda handa mér.


Meðan á öllum þessum hrakningum stendur sýni ég æðruleysi sem á sér trúlega enga hliðstæðu, klárlega skólabókardæmi öllum til eftirbreytni. Döh...
Inn fer mynd af Alfonso í eldhúsinu....


mánudagur, 14. apríl 2008

Fernando




14. apríl.


Það er gríðarlegt stuð að vera ég á Spáni. Eins og í gær þegar ég ætlaði að skila lyklinum að "páskadílnum" í Torremolinos. Þá kom í ljós að þó ég hafi gefið upp kortanúmer var ekkert tekið af kortinu. Það gera þeir þegar maður fer.


Ég er með fyrirframgreitt Visa (fyrir utan að vera eins og ég er í fjármálum) og nú kom í ljós að ég átti ekki fyrir gistingunni.


Ég hafði leyft mér allt mögulegt af því ég hélt að gistingin væri greidd, fékk mér alltaf bekk á ströndinni (fjórar evrur), tvisvar nudd hjá Kínverjunum sem hlaupa um alla sanda með spreyið sitt (30 evrur), keypti stuttbuxur, handklæði og tvö úr (margar evrur), fékk mér tapas, kaffi og ís þegar mig lysti (slatti af evrum) og svo framvegis.
Einn bekkjapassarinn var einstaklega elskulegur og vildi allt fyrir mig gera:
"Fjú pípol, you coll, mí bríng. Water, coffí, mí bríng." Svo fékk hann auðvitað tips fyrir það!
Og víkur nú sögunni að manninum í gestamóttökunni sem spurði hvað ég ætlaði að gera.
Það er þrennt sem maður gerir í svona aðstæðum.
1. Heldur kúlinu.
2. Dílar við starfsmann af gagnstæðu kyni, daðrar.
3. Er fyndinn.
Og Fernando féll fyrir þessu. Ég sagði honum að ég ætti trúlega fyrir gistingunni á morgun, ef ekki þá væri það uppvaskið og kartöfluskrælið.
Honum fannst aldeilis gráupplagt að bera allt dótið mitt upp aftur og sagðist endilega vilja hafa mig lengur og reyndar sem allra lengst. Tja...
Nema hvað, ég reyndi að hafa ekki áhyggjur af þessu, lagðist í sólböð og göngutúra og í morgun var ég aftur mætt með allt dótið handa Fernando til að geyma þangað til ég eignaðist pening síðar í dag.


Við spjölluðum lengi og honum fannst ég alltaf skrýtnari og skemmtilegri. Þegar ég loksins reiddi fram féð vildi hann endilega keyra mig til Malaga.
Sem hann og gerði.
Og af því ég lofaði aðdáendum mínum að segja frá öllum(!!!) Spánverjunum sem stráféllu fyrir mér segir ég þessa sögu hér.
Fernando gerði meira en að aka mér til Malaga, hann fór með mig í skemmtilega sýningarferð um strandbæina og ætlaði svo aldrei að vilja sleppa við járnbrautarstöðina.
Nú vill hann koma í heimsókn til Cordoba og sýna mér eitthvað fleira fallegt í nærliggjandi sveitum.
Hann er með e-mailið mitt og kannski fer ég með honum í bíltúr.
Það er hinsvegar tvennt sem mælir á móti Fernando:
a) Hann er með skrifstofuhendur.
b) Hann kemst ekki með tærnar þar sem músíkantinn minn og hugsanlegur elskhugi á Íslandi hefur hælana.
Set inn myndir af okkur Fernando.
PS. Er komin heim og þarf að beita ofurafli til að opna hurðina inn í herbergið, hún hefur heldur betur skekkst í rigningunni. Ljós punktur: Það mun ekki fara fram hjá mér ef einhver reynir að brjótast inn:)






fimmtudagur, 10. apríl 2008

Djö...- alltaf jafn meyr í nostalgíuköstunum





Ótrúlegt hvað þrjátíu ár eru fá á eilífðarskalanum og jafnvel í manns eigin ævi.


Fyrir þrjátíu árum, þegar ég var að vinna á Mogganum, bauð Ingólfur í Útsýn starfsfólki ódýrar ferðir til Torremolinos eftir páska.


Við slógum til ég og þáverandi eiginmaður og fórum með tvíburana okkar, Palla og Jóhann, þá þriggja ára.


Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór í sólarlandaferð og ég hafði ekki klúu um við hverju væri að búast.


Í flugvélinni á leiðinni var öskrandi fyllerí og mér er minnisstætt þegar einn góður vinur minn datt í orðsins fyllstu merkingu inn í flugstöðina á Malaga og ældi eins og múkki. Hann fálmaði eftir fríhafnarpokanum, fann vodkaflöskuna og teygaði lengi. Hristi sig og var fínn!!!!


Þetta var áður en ég vissi hvað alkóhólismi var.





Við fjölskyldan bjuggum á hinu fræga La Nogalera í miðbænum og enski barinn var samkomustaður Íslendinganna. Það var að sjálfsögðu alltaf verið að segja sömu sögurnar og þessa frægu um sjóarana sem veltust inn í leigubíl og mundu ekki hvar þeir áttu heima, heyrði ég oft. Einn þeirra var "enn á sjó" og röflaði óskýrmæltur: Lago með hlerana, og leigubílstjórinn ók þeim beina leið á La Nogalera þar sem þeir bjuggu.





Dagur tvö í Torremolinos rennur mér aldrei úr minni og var trúlega versti dagur lífs míns.


Við fórum með strákana niður í sundlaugargarðinn og þegar pabbinn sagðist ætla á klósettið kallaði ég á eftir honum að Jóhann ætlaði með honum.


Þegar hann kom til baka var Jóhann hvergi sjáanlegur og hafði ekki elt föður sinn á klósettið.


Við fórum strax að leita og í hálftíma fannst barnið ekki.





Ég var komin í móðursýkiskast eins og þau gerast verst, allir sameinuðust um leitina en ég var viss um að drengnum, hvíthærðum og bláeygum, hefði verið stolið af sígauna sem myndi selja hann í þrælahald eða eitthvað þaðan af verra.





La Nogalera samanstendur af mörgum byggingum sem eru allar eins, en drengurinn fannst í anddyrinu í okkar byggingu, þar sem hann stóð í skugganum af stórum plöntum og fór ekki að gráta fyrr en hann fannst.


Það tók mig marga klukkutíma að jafna mig.





Við fórum samt aftur út að laug seinnipartinn og fylgdumst vel með.





Allt í einu tók ég eftir að Palli litli pjakkur hafði verið ótrúlega lengi í kafi í barnapollinum og hljóp til hans. Hann var þá orðinn blár í framan, hafði misst jafnvægið með ekkert nema kúta á handleggjunum, sem ég vissi ekki þá að er stórhættulegt.


Ég fékk nýtt móðursýkiskast og vildi fara heim strax.





Daginn eftir keyptum við beisli á tvíburana og þeim var aldrei sleppt úr augsýn.


Eftir það var bara gaman í Torrremolinos.


Eins og í svona ferðum voru skemmtilegar týpur í hópnum og þetta var líka löngu áður en ég varð svo hrokafull að vilja ekki þekkja Íslendinga í útlöndum.


Ferðin stóð í 26 daga, þar af var sólarglæta í 11.





Fötin af drengjunum þornuðu ekki, svo mikill var rakinn í íbúðinni, og að vera með lítil börn í útlöndum er meiri vinna en heima. Ég man að við sátum klukkutímum saman og töldum regnhlífar, lærðum þannig litina og fórum svo niður á enska bar þar sem alltaf var stuð.


Eftir fyrsta sólardaginn skaðbrann ég og fékk sólsting. Það var í fyrsta skipti sem ég smakkaði koníak í kakói, sem Johnny barþjónn sendi mér reglulega upp í íbúð.





Í dag stóð ég og horfði upp í íbúðina á fjórðu hæð og það helltust yfir mig minningar. Svona "það er-eins-og- gerst-haf'í- gær-minningar."


Ég varð alveg óstjórnlega meyr og tók myndir í gríð og erg. Fann líka pöbbinn sem áður var enski barinn, en er nú eitthvað allt annað.





Þetta var "big time" nostalgíukast í Torremolinos. Sérstök kveðja til sonanna sem eru nú sjálfir orðnir pabbar. Gaman væri að vita hvort þeir könnuðust við myndirnar. Þær eru af sundlaugargarðinum, fjórðu hæðinni okkar og gamla enska barnum með nýjum eigendum - en engum Íslendingum.



PS. Ég hef líka soldið verið að furða mig á því hvað er lítið (ekkert) flautað á eftir mér. Þ.e. þangað til ég fór inn í túristabúð að kaupa mér stuttbuxur.
Þú þarft örugglega sömu stærð og ég sagði afgreiðsludaman (lítil og feit) og gaf mér prufu af hrukkukremi. Shiiittttt.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Ef það væri til Tepruland...



...væri ég drottning í Teprulandi.

Það heldur bara áfram að vera gaman í þessari Spánarferð.

Í fyrradag byrjaði að rigna og rigndi viðstöðulaust alla nóttina og fram eftir degi. Ég var niðursokkin í vinnu fyrir eyjuna eftir hádegi í gær og tók ekki eftir því fyrr en um fjögurleytið, þegar ég fór fram til að fá mér eitthvað í svanginn, að ég óð polla fram að dyrum.

Það míglak á tveimur stöðum, meðfram hurðinni og aðeins innar í herberginu og ég sótti fötur og tilheyrandi og hélt svo áfram að vera niðursokkin.


Næst þegar ég stóð upp var farið að leka á tveim stöðum í viðbót og næstum ekki hægt að segja í dropatali. Annar staðurinn var fyrir ofan rúmið mitt.


Ég fór niður og sótti Pilar sem yppti öxlum og sagði að það kæmi kona að þrífa morgun!!!!

Ég harðneitaði að sofa í þessu herbergi og á endanum sendi hún mig á pensjónat í næstu götu. Þegar ég opnaði herbergisdyrnar þar gaus á móti mér hroðaleg fúkkalykt en ég ákvað að vera jákvæð og fara í sturtu með sjampóið góða, það var svo góð lykt af því.


Þegar ég opnaði inn á bað horfðist ég í augu við heimsins stærsta kakkalakka á vaskinum, sem veifaði mér vingjarnlega með fálmurunum. Ég skellti strax aftur og og hugsaði minn gang.


Klukkan var ekki nema átta og mig langaði ekki sérstaklega að leggjast undir lakið þarna og horfa á spænska spurningaþætti í sjónvarpinu.

Ákvað að fara á kaffihús sem ég hafði séð ekki langt í burtu og var svo heppin að þetta var el Jazz Café og jamsession í gangi.


Mér fannst reyndar skrýtin lyktin, ég þekki ekki hasslykt en ég hefði ekki drukkið kókið nema af því ég sá barþjóninn opna flöskuna. Þegar hann hellti hnetum í skál handa mér var ég á báðum áttum, kannski voru þetta hasshnetur!!!

Ég svaf svo pinnstíf við ljós og þar af leiðandi næstum ekki neitt. Það var líka grunsamlegt skrjáf í fataskápnum og hundur sem gelti eins og óður fyrir utan. Best gæti ég trúað að hann hafi verið að gelta að rottu í skápnum mínum, sem sneri einmitt út að götunni.


Í morgun átti ég vakt á eyjunni og fór yfir í kaffistofuna hinum megin við götuna til að vinna. Ég færði mig fjórum sinnum um borð og gafst svo upp. Það míglak allstaðar og fyrir rest sátu allir með spenntar regnhlífar og drukku kaffið sitt.


Þegar ég var að vafra á netinu um daginn (áður en ég hafði frétt nokkuð af yfirvofandi Nóaflóði) rakst ég á "páskadíl" á Torremolinos sem var ekkert nema fyndinn. Ég sló til og fór niður eftir í dag. Ég hef ekki komið hér í 30 ár en á góðar minningar sem helltust yfir mig áðan þegar ég gekk um gamlar slóðir.

Verð hér að minnsta kosti þangað til styttir upp. Hef heldur ekki trú á að þakið mitt í Cordoba hafi haldið. Kannski á ég aftur hvergi heima.

Set inn nokkrar myndir að venju en því miður var batteríið búið í vélinni þegar allir sátu inni með regnhlífarnar. Myndirnar af lekanum eru líka ægilega óskýrar.


mánudagur, 7. apríl 2008

Þegar maður heldur að sjampó sé bodylotion

7. apríl.

Það hefur verið ansi heitt hér síðustu daga, 35-38 stiga hiti, og af því ég er svo miðaldra verð ég auðvitað að passa extra vel á mér húðina.

Til að vera vel græjuð í sólina keypti ég sólarvörn númer 15 með innifaldri ofnæmisvörn og rakst svo á Dove therapy, svona pro-age sem þeir eru alltaf að auglýsa, og fjárfesti í einni svoleiðis.

Í gær eftir sturtuna ákvað ég að maka þessu á mig og vera hvergi spör á kremið. Fannst þó einkennilegt hvað það gekk alls ekki inn í húðina.
Ég færðist þá bara í aukana og makaði fastar, þetta sannaði fannst mér hvað ég væri gasalega skorpin.
Þegar ég var búin með helminginn úr flöskunni og var enn að djöflast fór mig að gruna að eitthvað væri óeðlilegt. Þegar ég rýndi svo í flöskuna sá ég að stóð með oggulitlum stöfum: champú.

Ég er ekki að ýkja, ég freyddi í þrjú korter í sturtunni.

Og ég sem hélt ég væri að ná svo góðum tökum á spænskunni.
Mér finnst ég voðalega heimskonuleg þegar ég fer á kaffihús, býð góðan daginn, panta kaffi með mjólk og ókolsýrt vatn, allt á lýtalausri spönsku. Tek upp sígarettuveskið, rétti úr löngum leggjunum og horfi flörtandi í allar áttir. Bið svo um reikninginn og kveð, enn jafn frjálsleg í fasi - og enn á spönsku.
Þetta er þó greinilega ekki nóg svo ég ætla að tékka á spænskukúrs á eftir.

föstudagur, 4. apríl 2008

Merkjakerfi á klósetthurðinni og fleiri snjallar lausnir


Mér tekst aldrei að díla við þessar myndir sem raðast alltaf jafn klaufalega.

4. apríl.
Flúin inn af þakinu, örugglega 50 stiga hiti þar.



Ég gleymdi þegar ég var að segja frá "budget"-gistingunni um daginn og var að paufast um í myrkrinu til að vekja ekki neinn, að þá voru allir farnir út.
Pínu hallærislegt.


Nú er hins vegar gistingin öll önnur. Ég leigi hér hjá konu sem býr með níræða móður sína hjá sér og af og til heyrir maður mjög svo einkennilegt jarm í gömlu konunni. Ekki að það trufli mann hið minnsta.
Húsið er eins og fyrr segir í gamla bænum og og ber þess merki. Það einhvern veginn hangir saman af gömlum vana, ekki ein einasta hurð passar í falsið svo það þarf að beita lagni til að opna og loka. Stundum er það bara ekki hægt eins og á klósettinu hér uppi, sem er heldur bagalegt. Það er nefnilega mexíkóskur strákur sem leigir hér líka og við deilum baðherberginu. Nú erum við búin að koma okkur upp systemi, ef gulur límmiði er á hurðinni er hann inni en rauður þýðir að ég sé inni. Snjallt.
Húsgögnin eru kafli út af fyrir sig. Ég þori að hengja mig upp á að ekkert hér inni myndi seljast í Góða hirðinum. Þetta eru ekki antikhúsgögn, bara ævaforn og ógurlega lasnar mublur sem gera samt gagn. Og þrátt fyrir þetta er þvílíkur sjarmi í húsinu að ég verð öll heit innaní þegar ég geng hér upp stigana.

Mér finnst kannski eins og Cordoba sé hálfgert leyndarmál þegar kemur að ferðalögum Íslendinga, ég kannaðist varla við nafnið, en borgin er perla. Mátulega lítil (eða stór) og svo fögur að ég nenni að ganga hana þvera og endilanga nema náttlega ég sé að leita að 3GB-módemi.
Ég þurfti nefnilega að fá mér svoleiðis til að geta verið í internetsambandi og spurðist fyrir í Sevilla þar sem það var allstaðar til. Ég bjóst þá líka við að það væri til í Cordoba.
Ég var hins vegar send milli Vodafone-búðanna hér í tví- og þrígang og menn bara fórnuðu höndum. "Ekki til" sögðu þeir og hristu hausana, en einn bauðst fyrir rest til að panta og þá fengi ég það daginn eftir.
Ég var á taugum til klukkan fjögur daginn eftir en Rala (afgreiðslumaðurinn) fagnaði mér brosandi og veifaði græjunni. Ahh púff.
Ég ætla enn og aftur að setja hér inn myndir þó þær fari yfirleitt í eitthvert rugl. Myndirnar eru af innganginum í húsið, stiganum upp á þak og útsýninu á þakinu.



miðvikudagur, 2. apríl 2008

Cordoba, yndislega Cordoba




2. apríl.

Ætlaði að blogga heilan helling en er gjörsamlega búin eftir að hafa hlaupið um Cordoba þvera og endilanga í 30 stiga hita í tvo daga til að redda internettengingu. Blogga þess vegna á morgun en set inn myndir núna.
Cordoba er svo æðisleg að ég á ekki orð. Konan lengst til vinstri heitir Pilar og er sú sem ég leigi hjá. Yndisleg kona og okkur gengur ótrúlega vel að tala saman þrátt fyrir að hún tali ekki orð í ensku og ég ekki orð í spænsku.
Miðmyndin er gatan sem ég bý við og lengst til vinstri er gatan fyrir neðan. Stóðst ekki freistinguna að taka mynd af krökkunum sem voru svo hress. Annars er allur gamli bærinn svona, hvert undursamlega öngstrætið af öðru, og miðbærinn er dásamlegur. Meira á morgun.