þriðjudagur, 29. apríl 2008
Hvít dúfa á grænu ljósi
mánudagur, 28. apríl 2008
Sat sú gaml'upp á þaki og spilaði og söng...
Já, já, þá er maður farinn að pósa hálfnakinn í Spiderman-sundlaugum í útlöndum.
Það gekk stórslysalaust að blása laugina upp, þeir gerðu það á tíu mínútum á veitingastaðnum hans Miguel.
Það var hinsvegar doldið mál að fylla hana af vatni þó hún sé ekki mjög stór. Við Alfonso fórum með margar fötur upp marga stiga, en nú er líka allt annað að sóla sig á þakinu.
Ég er eftir mig eftir hátíðahöldin í gær, blómahátíðin mikla hófst með mikilli viðhöfn og tugir skreyttra vagna óku um göturnar fullar af fólki sem spilaði, dansaði flamengo og klappaði eins og Spánverjum einum er lagið.
Það var ekki leiðinlegt að vakna hér snemma á sunnudagsmorgni og taka þátt í gleðinni. Þegar vagnarnir fóru af stað upphófst mikill blómabardagi, kallaður Battles of the Flowers. Þeir sem sátu í vögnunum hentu blómum í fólkið sem safnaðist á götunum, sem lét svo ekki sitt eftir liggja í blómakastinu.
Margar af senjórítunum voru vel við aldur og máttu muna sinn fífil fegri, minntu jafnvel frekar á konur kenndar við annarskonar gleði en blómakast. Stríðsmálaðar í hitanum (farðinn var svona soldið hér og þar) stóðu þær glaðbeittar á vögnunum með sígarettur í öðru munnvikinu og fangið fullt af blómum, ólýsanlega flottar.
Svo tók við skemmtun á sviði og hátíðahöldin halda áfram allan maí.
Það hefur gengið erfiðlega að setja inn myndir, nú fæ ég ekki fleiri myndir inn svo ég ætla að prófa nýja færslu.
föstudagur, 25. apríl 2008
Að missa sig komplítlí í útlöndum
Eftir vinnu í dag slóst ég í för með fóstursyninum Alfonso, sem átti stefnumót við mann á kaffihúsi hér uppi í gamla hverfi.
Það var sjötíu stiga hiti eða fimmtíu eða eitthvað og við k0mumst hvorki lönd né strönd á þröngum götunum fyrir túristahópum sem komu eins og skriðufall á móti, eltandi rauða fána eða grænar húfur.
Þegar við loksins komumst á kaffihúsið hlömmuðum við okkur niður í skugganum og ég kveikti mér í sígarettu.
Karlinn á næsta borði fór strax að hósta og starði á mig manndrápsaugnaráði. Stuttu seinna tók kerlingin hans undir. Ég þekkti strax týpurnar, arrogant frekjudallar, og sagði vði Alfonso að ef kallinn andaði út úr sér einhverju um reykingar fengi hann fingurinn.
"Þú myndir aldrei gera það," sagði Alfonso.
"Ó, jú," sagði ég.
Hóstakjöltur hjónanna hélt áfram og svo kom það:
"Það er ótrúlegt tillitsleysi að reykja þar sem fólk ætlar að borða," sagði karlinn.
Og fékk fingurinn.
Alfonso varð kríthvítur í framan þegar hjónin stóðu upp og strunsuðu í burtu en mér var alveg sama. Ég þoli ekki þennan reykingafasisma, það er nóg af stöðum fyrir reyklausa að éta á.
Á sígarettuveskinu mínu stendur Hard Boil og ég var það sannarlega í dag.
Alfonso hinsvegar hringdi og frestaði stefnumótinu við vin sinn og sagði að nú færum við í mollið.
"Mollið?"
"Þú ert greinilega í þann veginn að fá sólsting," sagð Alfonso, "og nú förum við í mollið og kaupum sundlaug á þakið."
Eins og mollið sé staður fyrir fólk sem er að fá sólsting, sérstaklega ef það hefur ímugust á mollum.
Ég tuðaði alla leiðina í mollið, en Alfonso lét sem hann heyrði það ekki.
Þegar til kom var mollið öruggasti staðurinn til vera á í Cordoba í dag.
Inni var svalt og fáir á ferli.
Við fjárfestum í Spider-man-laug á tilboði, en glætan að ég geti blásið ferlíkið upp þrátt fyrir ættir norður í Þingeyjarsýslu.
Ég ætla með laugina á restaurantið til Miguel í kvöld og efna til samkeppni meðal fastagestanna. Þeir sem eru duglegastir að blása fá verðlaun. Þeir fá að kæla sig í lauginni á þakinu einu sinni á dag.
fimmtudagur, 24. apríl 2008
Fannst engum neitt athugavert við þetta?
Ég er ekki vön að blogga við fréttir og allra síst mínar eigin, en nú ætla ég að gera undantekningu. Á eyjunni í gær birtist frétt um að 131 einstaklingi með Downs heilkenni hefði verið eytt í Danmörku árið 2005. Enn voru engar tölur um árin á eftir, en tóninn í fréttinni var að þetta væri ótrúlega góður árangur!!!
Ég fékk bágt fyrir að nota orðið mongólíti og hef beðist afsökunar á því. Það breytir ekki því að ég er miður mín yfir þessum hugsunarhætti og þessari þróun. Sjálf hef ég ekki kynnst þroskaheftum fyrr en fyrir fjórum árum að ég kynntist dóttur vinkonu minnar, Vöku, sem þær mæðgur kalla reyndar báðar mongólíta.
Hún er í einu orði sagt yndisleg.
Auðvitað er það draumur allra að eignast heilbrigð börn, en eins og framtíðin "tegner sig" er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Ekki bara af gróðurhúsalofttegundum, styrjöldum, græðgi og hungursneyð, heldur hvert hinn vestræni heimur stefnir tæknilega.
Það á að steypa alla í sama mótið, "normið" verður alltaf þrengra. Ég sé fyrir mér eftir fjórar, fimm kynslóðir að allir gangi um í kyrtlum eins og í vísindaskáldsögu og einhverskonar yfirstjórn ákveði hverjir fæðist og með hvaða hæfileika.
Af tvennu illu vona ég að við verðum búin að tortíma jörðinni áður en til þess kemur.
Persónulega er ég óvirkur alkólisti með þunglyndistendensa og kvíðaröskun, plús að vera alveg úti á túni í fjármálum. Ég þekki fullt af breysku fólki sem er hvert öðru yndislegra, en okkur hefði örugglega öllum verið eytt.
Það gerði enginn athugasemd við þessa frétt, enda sýnist mér oft að athugasemdirnar séu í neikvæðari kantinum. Ef hægt er að hanka einhvern á þýðingarvillu verða menn óstjórnlega glaðir og gera athugasemdir hver um annan þveran, innihaldið skiptir minna máli.
Varð að fá útrás fyrir þessa þanka, en fer nú og kaupi barnalaug á þakið.
Alfonso sá Walt Disney-laugar fyrir fjórar evrur í búð ekki langt frá. Kannski ég misbjóði lesendum næst með myndum af okkur í busllaugunum:)
þriðjudagur, 22. apríl 2008
Hið daglega actionary
Spænskan mín er samt ekki að gera sig. Alfonso kennir mér tíu orð á dag en það dugar skammt.
Í dag brá ég mér inn þar sem mér sýndist vera snyrtistofa, að minnsta kosti var þar fullt af snyrtivörum og fimm afgreiðslustúlkur og einn afgreiðslumaður.
Erindið var að athuga með fastan lit á augabrúnirnar. Enginn talaði ensku svo ég lék augnabrúnalit eins og ég lifandi gat - með engum árangri.
Ég lék þetta alveg ágætlega og krakkarnir mínir hefðu verið löngu búnir að fatta, en afgreiðslufólkið þarna var svona rosalega lélegt að giska.
Það er kannski ekki að marka krakkana mína því þau eru með ólíkindum snjöll í actionary.
Halla fattaði til dæmis á þremur sekúndum þegar Jóhann lék rjómabollu, og svo mætti lengi telja.
Svo ætla ég ekki að tíunda einu sinni enn hvernig ég villist alltaf í útlöndum, en í dag þegar ég var búin að fara í súpermarkaðinn og kaupa tvo lítra af vatni, tvo lítra af ávaxtasöfum, einn lítra af mjólk ásamt hinu og þessu smálegu ákvað ég að fara aðeins lengri leið heim en ég var vön.
Ég gekk linnulaust með innkaupin í rúma tvo klukkutíma, göturnar þröngu eru eins og völundarhús og enda allar með gamalli kirkju á horninu og apóteki beint á móti. Þannig er nú það.
sunnudagur, 20. apríl 2008
Sólin skín og skín og skín
laugardagur, 19. apríl 2008
Loftflygsurnar fljóta í pollum
Gamla konan jarmar meira í rigningu en góðu veðri, hún er ekki níræð eins og ég hélt heldur 98 ára. Það er eins og heil kindahjörð hér á neðri hæðinni, en aumingja Pilar (dóttirin) vakir yfir henni dag og nótt. Þó gamla konan þekki ekki Pilar nema stundum varð hún alveg stjórnlaus þegar hún var lögð inn á sjúkrahús og Pilar hafði ekki hjarta í sér til að skilja hana eftir.
Ég sé að Glitnismenn eru á kampavíns- og styrjuhrognaflippi í Cannes. Grey þeir.
Það er langt síðan mér fór að verða ómótt í hvert skipti sem ég heyrði nýjar fréttir af forríka liðinu, nú haggast ég ekki. Stundum er geðveikin slík að maður getur ekki einu sinni haft á henni skoðun.
Við Alfonso ætlum að hafa það huggulegt í dag, hann fór í úrhellinu og keypti súkkulaði og snakk og ætlar að sýna mér myndir frá hjálparstarfi sem hann hefur tekið þátt í í Afríku og Suður-Ameríku. Ég ætla að sýna honum myndir af Íslandi og fjölskyldunni minni heima sem ég sakna stundum svo rosalega að mig beinlínis verkjar.
En ég vildi þetta sjálf og það er ekki bæði haldið og sleppt.
Til skýringar þá er Alfonso hinn leigjandinn hérna, 31 árs og eins og fyrr segir genginn mér í sonarstað. Með myndunum og namminu ætlum við að hafa Presley og Cohen.
Set inn nokkrar myndir af nýjustu lekastemmningunni. Ég hef furðað mig á því frá því ég kom að í herberginu er stór vatnskútur hálffullur af sandi. Ég hélt kannski að þetta væri eitthvert spænskt innanhússkraut sem ég bæri bara ekki skynbragð á en nú hefur runnið upp fyrir mér ljós. Fyrrverandi leigjandi hefur notað þetta til að loka svalahurðinni. Brilljant og hefur komið sér vel í vindrokunum undanfarið þegar allt fer á fleygiferð.
föstudagur, 18. apríl 2008
Enga ellismellabelli
miðvikudagur, 16. apríl 2008
Ítalska mafían, góðan daginn
mánudagur, 14. apríl 2008
Fernando
fimmtudagur, 10. apríl 2008
Djö...- alltaf jafn meyr í nostalgíuköstunum
Ótrúlegt hvað þrjátíu ár eru fá á eilífðarskalanum og jafnvel í manns eigin ævi.
Fyrir þrjátíu árum, þegar ég var að vinna á Mogganum, bauð Ingólfur í Útsýn starfsfólki ódýrar ferðir til Torremolinos eftir páska.
Við slógum til ég og þáverandi eiginmaður og fórum með tvíburana okkar, Palla og Jóhann, þá þriggja ára.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór í sólarlandaferð og ég hafði ekki klúu um við hverju væri að búast.
Í flugvélinni á leiðinni var öskrandi fyllerí og mér er minnisstætt þegar einn góður vinur minn datt í orðsins fyllstu merkingu inn í flugstöðina á Malaga og ældi eins og múkki. Hann fálmaði eftir fríhafnarpokanum, fann vodkaflöskuna og teygaði lengi. Hristi sig og var fínn!!!!
Þetta var áður en ég vissi hvað alkóhólismi var.
Við fjölskyldan bjuggum á hinu fræga La Nogalera í miðbænum og enski barinn var samkomustaður Íslendinganna. Það var að sjálfsögðu alltaf verið að segja sömu sögurnar og þessa frægu um sjóarana sem veltust inn í leigubíl og mundu ekki hvar þeir áttu heima, heyrði ég oft. Einn þeirra var "enn á sjó" og röflaði óskýrmæltur: Lago með hlerana, og leigubílstjórinn ók þeim beina leið á La Nogalera þar sem þeir bjuggu.
Dagur tvö í Torremolinos rennur mér aldrei úr minni og var trúlega versti dagur lífs míns.
Við fórum með strákana niður í sundlaugargarðinn og þegar pabbinn sagðist ætla á klósettið kallaði ég á eftir honum að Jóhann ætlaði með honum.
Þegar hann kom til baka var Jóhann hvergi sjáanlegur og hafði ekki elt föður sinn á klósettið.
Við fórum strax að leita og í hálftíma fannst barnið ekki.
Ég var komin í móðursýkiskast eins og þau gerast verst, allir sameinuðust um leitina en ég var viss um að drengnum, hvíthærðum og bláeygum, hefði verið stolið af sígauna sem myndi selja hann í þrælahald eða eitthvað þaðan af verra.
La Nogalera samanstendur af mörgum byggingum sem eru allar eins, en drengurinn fannst í anddyrinu í okkar byggingu, þar sem hann stóð í skugganum af stórum plöntum og fór ekki að gráta fyrr en hann fannst.
Það tók mig marga klukkutíma að jafna mig.
Við fórum samt aftur út að laug seinnipartinn og fylgdumst vel með.
Allt í einu tók ég eftir að Palli litli pjakkur hafði verið ótrúlega lengi í kafi í barnapollinum og hljóp til hans. Hann var þá orðinn blár í framan, hafði misst jafnvægið með ekkert nema kúta á handleggjunum, sem ég vissi ekki þá að er stórhættulegt.
Ég fékk nýtt móðursýkiskast og vildi fara heim strax.
Daginn eftir keyptum við beisli á tvíburana og þeim var aldrei sleppt úr augsýn.
Eftir það var bara gaman í Torrremolinos.
Eins og í svona ferðum voru skemmtilegar týpur í hópnum og þetta var líka löngu áður en ég varð svo hrokafull að vilja ekki þekkja Íslendinga í útlöndum.
Ferðin stóð í 26 daga, þar af var sólarglæta í 11.
Fötin af drengjunum þornuðu ekki, svo mikill var rakinn í íbúðinni, og að vera með lítil börn í útlöndum er meiri vinna en heima. Ég man að við sátum klukkutímum saman og töldum regnhlífar, lærðum þannig litina og fórum svo niður á enska bar þar sem alltaf var stuð.
Eftir fyrsta sólardaginn skaðbrann ég og fékk sólsting. Það var í fyrsta skipti sem ég smakkaði koníak í kakói, sem Johnny barþjónn sendi mér reglulega upp í íbúð.
Í dag stóð ég og horfði upp í íbúðina á fjórðu hæð og það helltust yfir mig minningar. Svona "það er-eins-og- gerst-haf'í- gær-minningar."
Ég varð alveg óstjórnlega meyr og tók myndir í gríð og erg. Fann líka pöbbinn sem áður var enski barinn, en er nú eitthvað allt annað.
Þetta var "big time" nostalgíukast í Torremolinos. Sérstök kveðja til sonanna sem eru nú sjálfir orðnir pabbar. Gaman væri að vita hvort þeir könnuðust við myndirnar. Þær eru af sundlaugargarðinum, fjórðu hæðinni okkar og gamla enska barnum með nýjum eigendum - en engum Íslendingum.
PS. Ég hef líka soldið verið að furða mig á því hvað er lítið (ekkert) flautað á eftir mér. Þ.e. þangað til ég fór inn í túristabúð að kaupa mér stuttbuxur.
Þú þarft örugglega sömu stærð og ég sagði afgreiðsludaman (lítil og feit) og gaf mér prufu af hrukkukremi. Shiiittttt.
miðvikudagur, 9. apríl 2008
Ef það væri til Tepruland...
mánudagur, 7. apríl 2008
Þegar maður heldur að sjampó sé bodylotion
Og ég sem hélt ég væri að ná svo góðum tökum á spænskunni.