föstudagur, 18. apríl 2008

Enga ellismellabelli



Ég verð að deila þessu skemmtilega orði með ykkur, meira að segja í fyrirsögn, þó ég geri ráð fyrir að mínir frómu samstarfsmenn á eyjunni muni gnísta tönnum.

En þetta var sumsé ráðlegging sem ég fékk í tölvupósti frá kærum vini.


Ég var að hugsa um að skrifa hér smá hugleiðingu um ástina. Hún hefur verið mér hugleikin upp á síðkastið af því ég er svo botnlaust ástfangin af ástinni.

Þegar ég er ein í útlöndum skoða ég fólk.

Ég sit á kaffihúsum og er hugfangin af því að skoða fólk.

Það sem mér þykir dapurlegast er að pör, að ég tali nú ekki um miðaldra hjón, sitja oftar en ekki þegjandi og glápa út í loftið. Það er engin gleði eða eftirvænting í svipnum, ekkert hlegið, allt gamall og kikklaus vani.

Ég veit að í flestum tilfellum ríkir vinátta og væntumþykja í þessum samböndum sem er fínt.

Og þó kerlingarnar séu margar skelfilega rotinpúrulegar vorkenni ég þeim samt að þurfa að vakna hjá körlunum sem þær eru með á hverjum morgni.
Svo er svo margt furðulegt.

Eins og hjónin sem sátu á næsta borði við mig á ströndinni í Torremolinos. Þau voru um fertugt með tvo syni á táningsaldri með sér.

Sá yngri var svo örmagna að hann lá með ennið á borðinu allan tímann og sagði ekki orð. Hjónin ræddu ekki mikið saman, en fjölskyldan var kappklædd, frúin í sokkabuxum undir buxunum og allir í peysum og úlpum.

Hvað var það í sól og 27 stiga hita?


Eftir að við Alfonso urðum svona góðir vinir hef ég kynnst urmul af fólki. Hann talar náttúrlega spænsku og ensku og við þvælumst saman um allt og eigum okkur uppáhaldsstað sem er Cruz del Rastro, tapasbar hérna niðri á horninu.

Þar ræður ríkjum eigandinn og kokkurinn Miguel sem er ótrúlega merkilegur maður sem ég ætla að taka viðtal við þegar færi gefst.

En hann hefur tekið slíku ástfóstri við mig að það hálfa væri nóg.

Barþjónninn er látinn spila í gítar í hvert skipti sem mig langar að heyra tónlist, hver exótíski rétturinn á fætur öðrum er borinn á borð fyrir mig og Miguel segir eins og Spánverja er siður að ég sé ómótstæðileg og hann rómantískari og yndislegri en aðrir menn.

Ég er hinsvegar ekki að leita að manni.

Það rignir yfir mig tölvupóstum frá Antonio (Fernando) sem langar svo ægilega að fara með mig í bíltúr. Smá rúnt og ís á eftir geri ég ráð fyrir.

Þetta kitlar allt, en heillar ekki.

Ég fór hins vegar og keypti mér safndisk með Presley, eingöngu ástarlög, og er heillum horfin þegar ég ligg hér í kertaljósunum og hlusta á Elvis. Mellankólsk og ástfangin af öllum mönnunum sem ég hef verið ástfangin af í gegnum tíðina.


Svona rétt í lokin: Það ausrigndi í nótt og heilu flygsurnar úr loftinu flutu í pollum á gólfinu þegar ég vaknaði. Ég haggaðist ekki og nú er komin sól svo vandamálið er úr sögunni. Svona er maður fljótur að aðlaga sig.

Ég ætla að setja inn myndir af ánni sem er svo rómó að horfa á með fljótandi ljósum alla leið að rómönsku brúnni, og mér og Miguel að sjálfsögðu.








2 ummæli:

  1. Alfonso? Antonio? Alfesca? Allegro?
    Það vantar sárlega Harry Potter yfirlitslexicon í stafrófsröð yfir suðræna karlmenn, hér í seinni tíð. Góðar stundir ;;) hke

    SvaraEyða
  2. Ég veit. Þetta er soldið flókið. En karlamál eru það þó karlmenn séu einfaldar sálir.
    Ég reyni að úttala mig skýrar í framtíðinni.
    Risaknús til þín:)

    SvaraEyða