þriðjudagur, 22. apríl 2008

Hið daglega actionary




Þar kom að því að frúin fékk að reykja nægju sína. Við Alfonso fórum á arabískt tehús og fengum okkur kókoste og hookka-pípu með mangóbragði. (Hann er frá Mexíkó og kallar þetta hookka.) Set inn mynd svo þið sjáið nautnasvipinn. Þaðan fórum við svo í sextugsafmæli til Miguels. Gamla kempan lék á als oddi og allir skemmtu sér konunglega.

Spænskan mín er samt ekki að gera sig. Alfonso kennir mér tíu orð á dag en það dugar skammt.
Í dag brá ég mér inn þar sem mér sýndist vera snyrtistofa, að minnsta kosti var þar fullt af snyrtivörum og fimm afgreiðslustúlkur og einn afgreiðslumaður.

Erindið var að athuga með fastan lit á augabrúnirnar. Enginn talaði ensku svo ég lék augnabrúnalit eins og ég lifandi gat - með engum árangri.

Ég lék þetta alveg ágætlega og krakkarnir mínir hefðu verið löngu búnir að fatta, en afgreiðslufólkið þarna var svona rosalega lélegt að giska.
Það er kannski ekki að marka krakkana mína því þau eru með ólíkindum snjöll í actionary.
Halla fattaði til dæmis á þremur sekúndum þegar Jóhann lék rjómabollu, og svo mætti lengi telja.

Svo ætla ég ekki að tíunda einu sinni enn hvernig ég villist alltaf í útlöndum, en í dag þegar ég var búin að fara í súpermarkaðinn og kaupa tvo lítra af vatni, tvo lítra af ávaxtasöfum, einn lítra af mjólk ásamt hinu og þessu smálegu ákvað ég að fara aðeins lengri leið heim en ég var vön.
Ég gekk linnulaust með innkaupin í rúma tvo klukkutíma, göturnar þröngu eru eins og völundarhús og enda allar með gamalli kirkju á horninu og apóteki beint á móti. Þannig er nú það.

5 ummæli:

  1. Já, hæfileikar okkar systkinanna i actionary eru náttúrulega óviðjafnanlegir. Og get ekki sagt að ég sé hissa á að þú hafir villst akkúrat þegar þú varst búin að versla sem mest inn, hehe.

    SvaraEyða
  2. Það sem gerir okkur svona góð í Actionary er að við erum bæði góð í að leika og giska, kannski þarftu bara að æfa þig betur í að leika fastan augabrúnalit...

    Knús !

    SvaraEyða
  3. Ég er að segja það, það var ekkert hægt að leika þetta betur. Þeir skildu heldur ekki áðan þegar ég lék fyrir þá barnabusl-laug, svona litla plastlaug til að busla í!
    Við Alfonso ætlum á morgun að kaupa sitthvora, það er ekki líft á þakinu.

    SvaraEyða
  4. Fór eitt sinn á snyrtistofu á Spáni og bað um plokkun og litun. Það var auðsótt mál, plokkunin altso. Daman harðneitaði að lita augabrúnirnar á ljóshærðu íslensku konunni, fékk hláturskast og kallaði til allar hinar á stofunni, benti á mig og þær sprungu allar saman. Ég roðnaði niður í rass og spurði vesældarlega hvers vegna ekki? Nú, þú ert ljóhærð, þá setur maður ekki svartan lit á brúnirnar, var svarið, þegar þær gátu loks náð andanum. Ég gekk út með vel plokkaðar, ósýnilegar brúnir ...

    SvaraEyða
  5. Takk Hrund. Þetta er örugglega skýringin. Þau skildu leikþáttinn minn en þóttust ekkert skilja. Góðir Spánverjarnir!
    Og knús eins og venjulega til allra...

    SvaraEyða