Ótrúlegt hvað þrjátíu ár eru fá á eilífðarskalanum og jafnvel í manns eigin ævi.
Fyrir þrjátíu árum, þegar ég var að vinna á Mogganum, bauð Ingólfur í Útsýn starfsfólki ódýrar ferðir til Torremolinos eftir páska.
Við slógum til ég og þáverandi eiginmaður og fórum með tvíburana okkar, Palla og Jóhann, þá þriggja ára.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór í sólarlandaferð og ég hafði ekki klúu um við hverju væri að búast.
Í flugvélinni á leiðinni var öskrandi fyllerí og mér er minnisstætt þegar einn góður vinur minn datt í orðsins fyllstu merkingu inn í flugstöðina á Malaga og ældi eins og múkki. Hann fálmaði eftir fríhafnarpokanum, fann vodkaflöskuna og teygaði lengi. Hristi sig og var fínn!!!!
Þetta var áður en ég vissi hvað alkóhólismi var.
Við fjölskyldan bjuggum á hinu fræga La Nogalera í miðbænum og enski barinn var samkomustaður Íslendinganna. Það var að sjálfsögðu alltaf verið að segja sömu sögurnar og þessa frægu um sjóarana sem veltust inn í leigubíl og mundu ekki hvar þeir áttu heima, heyrði ég oft. Einn þeirra var "enn á sjó" og röflaði óskýrmæltur: Lago með hlerana, og leigubílstjórinn ók þeim beina leið á La Nogalera þar sem þeir bjuggu.
Dagur tvö í Torremolinos rennur mér aldrei úr minni og var trúlega versti dagur lífs míns.
Við fórum með strákana niður í sundlaugargarðinn og þegar pabbinn sagðist ætla á klósettið kallaði ég á eftir honum að Jóhann ætlaði með honum.
Þegar hann kom til baka var Jóhann hvergi sjáanlegur og hafði ekki elt föður sinn á klósettið.
Við fórum strax að leita og í hálftíma fannst barnið ekki.
Ég var komin í móðursýkiskast eins og þau gerast verst, allir sameinuðust um leitina en ég var viss um að drengnum, hvíthærðum og bláeygum, hefði verið stolið af sígauna sem myndi selja hann í þrælahald eða eitthvað þaðan af verra.
La Nogalera samanstendur af mörgum byggingum sem eru allar eins, en drengurinn fannst í anddyrinu í okkar byggingu, þar sem hann stóð í skugganum af stórum plöntum og fór ekki að gráta fyrr en hann fannst.
Það tók mig marga klukkutíma að jafna mig.
Við fórum samt aftur út að laug seinnipartinn og fylgdumst vel með.
Allt í einu tók ég eftir að Palli litli pjakkur hafði verið ótrúlega lengi í kafi í barnapollinum og hljóp til hans. Hann var þá orðinn blár í framan, hafði misst jafnvægið með ekkert nema kúta á handleggjunum, sem ég vissi ekki þá að er stórhættulegt.
Ég fékk nýtt móðursýkiskast og vildi fara heim strax.
Daginn eftir keyptum við beisli á tvíburana og þeim var aldrei sleppt úr augsýn.
Eftir það var bara gaman í Torrremolinos.
Eins og í svona ferðum voru skemmtilegar týpur í hópnum og þetta var líka löngu áður en ég varð svo hrokafull að vilja ekki þekkja Íslendinga í útlöndum.
Ferðin stóð í 26 daga, þar af var sólarglæta í 11.
Fötin af drengjunum þornuðu ekki, svo mikill var rakinn í íbúðinni, og að vera með lítil börn í útlöndum er meiri vinna en heima. Ég man að við sátum klukkutímum saman og töldum regnhlífar, lærðum þannig litina og fórum svo niður á enska bar þar sem alltaf var stuð.
Eftir fyrsta sólardaginn skaðbrann ég og fékk sólsting. Það var í fyrsta skipti sem ég smakkaði koníak í kakói, sem Johnny barþjónn sendi mér reglulega upp í íbúð.
Í dag stóð ég og horfði upp í íbúðina á fjórðu hæð og það helltust yfir mig minningar. Svona "það er-eins-og- gerst-haf'í- gær-minningar."
Ég varð alveg óstjórnlega meyr og tók myndir í gríð og erg. Fann líka pöbbinn sem áður var enski barinn, en er nú eitthvað allt annað.
Þetta var "big time" nostalgíukast í Torremolinos. Sérstök kveðja til sonanna sem eru nú sjálfir orðnir pabbar. Gaman væri að vita hvort þeir könnuðust við myndirnar. Þær eru af sundlaugargarðinum, fjórðu hæðinni okkar og gamla enska barnum með nýjum eigendum - en engum Íslendingum.
PS. Ég hef líka soldið verið að furða mig á því hvað er lítið (ekkert) flautað á eftir mér. Þ.e. þangað til ég fór inn í túristabúð að kaupa mér stuttbuxur.
Þú þarft örugglega sömu stærð og ég sagði afgreiðsludaman (lítil og feit) og gaf mér prufu af hrukkukremi. Shiiittttt.
fimmtudagur, 10. apríl 2008
Djö...- alltaf jafn meyr í nostalgíuköstunum
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 15:56
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Ég þekki þetta vel. þú ert ekki ein með þessar minningar.
SvaraEyðaKannastu við eitthvað á myndunum. Og hvernig gengur pjakkurinn minn? Ástarkveðja frá mömmu.
SvaraEyðaÉg var á Timor Sol 1981 og 1982. Ég man að La Nogalera var uppnefnt Lokuðu hlerarnir. Mig hefur oft langað til að fara til Andalúsíu en er hrædd um að verða fyrir vonbrigðum þar sem að ég er ekki lengur á diskó aldri. Ég drakk í 1. skipti á Timor Sol koníak í kókómjólk en man ekki lengur hvað það heitir, eitthvað Lumba. Hafðu það sem allra best.
SvaraEyðaEn hvar er John á Enska barnum? Hann var nú alveg svakalega sætur. Já Edda mín, minningarnar hellast yfir mann af minnsta tilefni, alveg ótrúlegt. Nú er að koma vor á Íslandi, það kemur á þriðjudaginn las ég í morgun, þannig að þér er óhætt að koma heim. Knús frá Svaladrottningu #2
SvaraEyða