laugardagur, 19. apríl 2008

Loftflygsurnar fljóta í pollum

19. apríl.

Það var laka- og teppadagur í gær, úrhellinu linnir ekki og ekkert hægt að gera nema lesa og éta súkkulaði.

Mér er búið að vera skítkalt undanfarna daga, sérstaklega á næturnar.

Ég byrjaði með eitt lak og tvö teppi og engin náttklæði frekar en venjulega. Nú er ég komin í tvö lök og fimm teppi og sef í bol!!!!

Gamla konan jarmar meira í rigningu en góðu veðri, hún er ekki níræð eins og ég hélt heldur 98 ára. Það er eins og heil kindahjörð hér á neðri hæðinni, en aumingja Pilar (dóttirin) vakir yfir henni dag og nótt. Þó gamla konan þekki ekki Pilar nema stundum varð hún alveg stjórnlaus þegar hún var lögð inn á sjúkrahús og Pilar hafði ekki hjarta í sér til að skilja hana eftir.

Ég sé að Glitnismenn eru á kampavíns- og styrjuhrognaflippi í Cannes. Grey þeir.

Það er langt síðan mér fór að verða ómótt í hvert skipti sem ég heyrði nýjar fréttir af forríka liðinu, nú haggast ég ekki. Stundum er geðveikin slík að maður getur ekki einu sinni haft á henni skoðun.

Við Alfonso ætlum að hafa það huggulegt í dag, hann fór í úrhellinu og keypti súkkulaði og snakk og ætlar að sýna mér myndir frá hjálparstarfi sem hann hefur tekið þátt í í Afríku og Suður-Ameríku. Ég ætla að sýna honum myndir af Íslandi og fjölskyldunni minni heima sem ég sakna stundum svo rosalega að mig beinlínis verkjar.

En ég vildi þetta sjálf og það er ekki bæði haldið og sleppt.

Til skýringar þá er Alfonso hinn leigjandinn hérna, 31 árs og eins og fyrr segir genginn mér í sonarstað. Með myndunum og namminu ætlum við að hafa Presley og Cohen.

Set inn nokkrar myndir af nýjustu lekastemmningunni. Ég hef furðað mig á því frá því ég kom að í herberginu er stór vatnskútur hálffullur af sandi. Ég hélt kannski að þetta væri eitthvert spænskt innanhússkraut sem ég bæri bara ekki skynbragð á en nú hefur runnið upp fyrir mér ljós. Fyrrverandi leigjandi hefur notað þetta til að loka svalahurðinni. Brilljant og hefur komið sér vel í vindrokunum undanfarið þegar allt fer á fleygiferð.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli