Það hefur verið ansi heitt hér síðustu daga, 35-38 stiga hiti, og af því ég er svo miðaldra verð ég auðvitað að passa extra vel á mér húðina.
Til að vera vel græjuð í sólina keypti ég sólarvörn númer 15 með innifaldri ofnæmisvörn og rakst svo á Dove therapy, svona pro-age sem þeir eru alltaf að auglýsa, og fjárfesti í einni svoleiðis.
Í gær eftir sturtuna ákvað ég að maka þessu á mig og vera hvergi spör á kremið. Fannst þó einkennilegt hvað það gekk alls ekki inn í húðina.
Ég færðist þá bara í aukana og makaði fastar, þetta sannaði fannst mér hvað ég væri gasalega skorpin.
Þegar ég var búin með helminginn úr flöskunni og var enn að djöflast fór mig að gruna að eitthvað væri óeðlilegt. Þegar ég rýndi svo í flöskuna sá ég að stóð með oggulitlum stöfum: champú.
Ég er ekki að ýkja, ég freyddi í þrjú korter í sturtunni.
Og ég sem hélt ég væri að ná svo góðum tökum á spænskunni.
Mér finnst ég voðalega heimskonuleg þegar ég fer á kaffihús, býð góðan daginn, panta kaffi með mjólk og ókolsýrt vatn, allt á lýtalausri spönsku. Tek upp sígarettuveskið, rétti úr löngum leggjunum og horfi flörtandi í allar áttir. Bið svo um reikninginn og kveð, enn jafn frjálsleg í fasi - og enn á spönsku.
Þetta er þó greinilega ekki nóg svo ég ætla að tékka á spænskukúrs á eftir.
Hahaha, þú ert snillingur!
SvaraEyðaEkki að spyrja að minni! Dugleg stelpa. Haltu endilega áfram að gera mistök, finnst þetta hrikalega fyndið. Þú þekkir nú mig og minn húmor.
SvaraEyðaKv. Kolla.