miðvikudagur, 16. apríl 2008

Ítalska mafían, góðan daginn

16. apríl.


Það er hálfspældur bloggari sem bloggar frá Spáni núna.

Ég var auðvitað sannfærð um það í Torremolinos að ég hefði bruðlað með peningana en það kom í ljós að hraðbankinn á horninu, þar sem ég tók einu sinni út pening, var glæpahraðbanki. Ég var ekkert búin að eyða svona miklu.


Glöggur bankastarfsmaður hringdi í mig og spurði hvort ég væri á Spáni óg Ítalíu sama daginn. Einhver hafði tekið út af kortinu 600 evrur á Ítalíu. Helvítis mafían.


Svo eru bílakaup sem áttu að ganga greiðlega fyrir sig heima í einhverri hönk svo ég er í fýlu út af því.


Fernando (sem kemur í ljós að heitir Antonio, hann sagði mér að pabbi hans héti Fernando þegar ég var að útskýra fyrir honum íslensk eftirnöfn) sagði mér að nokkrir hótelgestir hjá þeim hefðu lent í þessu, en ég hafði enga trú á að svona nokkuð henti mig.


Ekki frekar en ég bjóst við að fá fuglaflensu og verða fyrst Íslendinga til að deyja úr sjúkdómnum.

Ég gleymdi nefnilega að segja ykkur það.


Í morgunmatnum á Torremolinos kom ég niður einn daginn alveg banhungruð og hrúgaði á diskinn spældu eggi, fleski, baunum og tilheyrandi, raðaði þessu öllu upp á gaffalinn, tuggði og kyngdi.

Græðgin ríður jú ekki við einhleyping.

Nema hvað, eggið var fúlt og baneitrað og ég er viss um að hænan sem verpti því valt örend á hliðina að varpinu loknu. Nú eru hún hinumegin hænsnamóðunnar miklu þar sem ríkir heiðríkjan ein og fuglaflensa þekkist ekki og skilur mig eftir í súpunni. Ég var að ropa þessu upp í tvo daga, en er að öðru leyti einkennalaus ennþá.
Læt vita þegar líður nær lokunum.


Og elsku vinkona "hke", þú sérð að ég mun ekki bresta í Abba-söng fyrir Fernando sem er ekki einu sinni Fernando. Mér er óhætt í bili.


Alfonso hérna hinumegin við ganginn er genginn mér í sonarstað. Hann varð svo hrifinn af hvað ég var búin að gera kósý í herberginu mínu að hann fór og keypti hellur í "eldhúsið" og vill nú sífellt vera að elda handa mér.


Meðan á öllum þessum hrakningum stendur sýni ég æðruleysi sem á sér trúlega enga hliðstæðu, klárlega skólabókardæmi öllum til eftirbreytni. Döh...
Inn fer mynd af Alfonso í eldhúsinu....


6 ummæli:

  1. Elsku kellingin, bara komin í suðrið og byrjuð að bjarga sér. Þú ert hörkukona Edda en mikið asskoti ætlar okkur að takast að sniðganga hver aðra þegar þú ert á landinu; hefði gjarnan viljað hitta þig fyrir brottför.
    En ég þarf að skrifa þér og segja bestu fréttir ever. Ér læknuð; ekki eftir vikuna góðu í janúar, nei; annað var það heillin segi þér frá undrinu í pósti.
    Njóttu svo vel; þekki það af eigin raun hve Spánn er dásamlega sjarmerandi land svo lengi sem maður kann eitthvað meira en túristi og kynnist þessu dýrðarinnar landi eins og innfæddur.
    Þin vinkona Begga

    SvaraEyða
  2. Hvor aðra átti það að vera Edda en ekki hver aðra

    SvaraEyða
  3. Skrifaðu mér endilega sem fyrst, nú er ég nærri dauð úr forvitni.
    Ástarkveðja, E.

    SvaraEyða
  4. Fúlegg í morgunmat og mafían að ræna þig? Ertu viss um að þetta tvennt sé ekki eitthvað tengt? Maður veit aldrei hvaða pyntingaraðferðir mafíunni dettur í hug að nota. En gott að heyra að það gengur vel að öðru leyti. Njóttu þín!

    SvaraEyða
  5. Elsku Edda,sýnist á öllu að þetta sé hið mesta ævintýri,fannst kommentið frá Önnu Lilju alveg frábært ertu nú alveg vissum ha.... H
    Er eitthvað að því að syngja Fernando á Spáni þegar ég var þar síðast held það hafi verið 1976 þá var þetta á toppnum!En annars hafðu það gott Edda mín og já njóttu þín 100%.þín vinkona Stína

    SvaraEyða
  6. Jú, elsku Anna Lilja mín. Þetta er eitt allsherjar samsæri. Knús til ykkar allra.

    SvaraEyða