föstudagur, 4. apríl 2008

Merkjakerfi á klósetthurðinni og fleiri snjallar lausnir


Mér tekst aldrei að díla við þessar myndir sem raðast alltaf jafn klaufalega.

4. apríl.
Flúin inn af þakinu, örugglega 50 stiga hiti þar.



Ég gleymdi þegar ég var að segja frá "budget"-gistingunni um daginn og var að paufast um í myrkrinu til að vekja ekki neinn, að þá voru allir farnir út.
Pínu hallærislegt.


Nú er hins vegar gistingin öll önnur. Ég leigi hér hjá konu sem býr með níræða móður sína hjá sér og af og til heyrir maður mjög svo einkennilegt jarm í gömlu konunni. Ekki að það trufli mann hið minnsta.
Húsið er eins og fyrr segir í gamla bænum og og ber þess merki. Það einhvern veginn hangir saman af gömlum vana, ekki ein einasta hurð passar í falsið svo það þarf að beita lagni til að opna og loka. Stundum er það bara ekki hægt eins og á klósettinu hér uppi, sem er heldur bagalegt. Það er nefnilega mexíkóskur strákur sem leigir hér líka og við deilum baðherberginu. Nú erum við búin að koma okkur upp systemi, ef gulur límmiði er á hurðinni er hann inni en rauður þýðir að ég sé inni. Snjallt.
Húsgögnin eru kafli út af fyrir sig. Ég þori að hengja mig upp á að ekkert hér inni myndi seljast í Góða hirðinum. Þetta eru ekki antikhúsgögn, bara ævaforn og ógurlega lasnar mublur sem gera samt gagn. Og þrátt fyrir þetta er þvílíkur sjarmi í húsinu að ég verð öll heit innaní þegar ég geng hér upp stigana.

Mér finnst kannski eins og Cordoba sé hálfgert leyndarmál þegar kemur að ferðalögum Íslendinga, ég kannaðist varla við nafnið, en borgin er perla. Mátulega lítil (eða stór) og svo fögur að ég nenni að ganga hana þvera og endilanga nema náttlega ég sé að leita að 3GB-módemi.
Ég þurfti nefnilega að fá mér svoleiðis til að geta verið í internetsambandi og spurðist fyrir í Sevilla þar sem það var allstaðar til. Ég bjóst þá líka við að það væri til í Cordoba.
Ég var hins vegar send milli Vodafone-búðanna hér í tví- og þrígang og menn bara fórnuðu höndum. "Ekki til" sögðu þeir og hristu hausana, en einn bauðst fyrir rest til að panta og þá fengi ég það daginn eftir.
Ég var á taugum til klukkan fjögur daginn eftir en Rala (afgreiðslumaðurinn) fagnaði mér brosandi og veifaði græjunni. Ahh púff.
Ég ætla enn og aftur að setja hér inn myndir þó þær fari yfirleitt í eitthvert rugl. Myndirnar eru af innganginum í húsið, stiganum upp á þak og útsýninu á þakinu.



6 ummæli:

  1. Elsku besta Edda mín. Ég man varla eftir að hafa fundið til öfundar í garð nokkurs manns á ævinni, en ég get svo svarið það að ég hálf öfunda þig :) Sérstaklega þetta með rauða og gula merkimiðann. En að vera í litlu, spænsku þorpi, þar sem hurðir passa ekki, þar sem leigjandinn býr með níræða móður sína, púff, hvað getur verið yndislegra? Sakna þín, en það er kannski ágætt að þú sért ekki hér því hér eru engar svalir. Þú myndir alls ekki fíla þig úti á tröppum með sígó, ég get alveg lofað þér því. Þetta er allt að koma hjá hinni svaladrottningunni, en samt margir mánuðir í að báturinn nái landi. Taugakerfið fór fjandans til en það er hálfpartinn að koma saman aftur og nú skil ég þína líðan fyrir tveimur árum.. Say no more. Vertu dugleg að blogga ljósið mitt. Knús og kossar frá Svaladrottningu númer 2, þú munt alltaf vera drottningin númer eitt.

    SvaraEyða
  2. Elsku svaladrottningin mín. Það er aukarúm hér í herberginu ef þú ættir nú leið um.
    Sakna þín líka og hugsa oft til þín. Sendi baráttukveðjur og stórt knús.

    SvaraEyða
  3. Hljómar æðislega mútta mín. Ekki laust við að ég sé öfundsjúk líka. Við fengum smá nasaþef af vorinu hérna í gær en nú er eftur komin rigning og haglél í þokkabót.

    Vildi að ég væri hjá þér í Cordoba. . .

    SvaraEyða
  4. Elsku stelpan mín.
    Vildi líka að þú værir hjá mér í Cordoba. Vildi hafa ykkur öll hjá mér. Ástarkveðjur, mamma.

    SvaraEyða
  5. Varð ekkert yfir mig hrifin þegar ég leit út í morgun og allt var þakið í dúnamjúkum jólasnjó af fallegustu gerð. Í apríl. Í Englandi. Konan með verðlaunagarðinn við hliðina var heldur ekkert ánægð en hænurnar hinum megin létu þetta ekkert á sig fá. Er samt á leiðinn að panta far til þín held ég bara. . .

    SvaraEyða
  6. Piff piff á England og Spán.. vorið er komið á Íslandi og þá er gaman að vera til !

    XXXXX
    Halla

    SvaraEyða