fimmtudagur, 24. apríl 2008

Fannst engum neitt athugavert við þetta?

Ég er ekki vön að blogga við fréttir og allra síst mínar eigin, en nú ætla ég að gera undantekningu. Á eyjunni í gær birtist frétt um að 131 einstaklingi með Downs heilkenni hefði verið eytt í Danmörku árið 2005. Enn voru engar tölur um árin á eftir, en tóninn í fréttinni var að þetta væri ótrúlega góður árangur!!!

Ég fékk bágt fyrir að nota orðið mongólíti og hef beðist afsökunar á því. Það breytir ekki því að ég er miður mín yfir þessum hugsunarhætti og þessari þróun. Sjálf hef ég ekki kynnst þroskaheftum fyrr en fyrir fjórum árum að ég kynntist dóttur vinkonu minnar, Vöku, sem þær mæðgur kalla reyndar báðar mongólíta.
Hún er í einu orði sagt yndisleg.

Auðvitað er það draumur allra að eignast heilbrigð börn, en eins og framtíðin "tegner sig" er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Ekki bara af gróðurhúsalofttegundum, styrjöldum, græðgi og hungursneyð, heldur hvert hinn vestræni heimur stefnir tæknilega.

Það á að steypa alla í sama mótið, "normið" verður alltaf þrengra. Ég sé fyrir mér eftir fjórar, fimm kynslóðir að allir gangi um í kyrtlum eins og í vísindaskáldsögu og einhverskonar yfirstjórn ákveði hverjir fæðist og með hvaða hæfileika.

Af tvennu illu vona ég að við verðum búin að tortíma jörðinni áður en til þess kemur.

Persónulega er ég óvirkur alkólisti með þunglyndistendensa og kvíðaröskun, plús að vera alveg úti á túni í fjármálum. Ég þekki fullt af breysku fólki sem er hvert öðru yndislegra, en okkur hefði örugglega öllum verið eytt.

Það gerði enginn athugasemd við þessa frétt, enda sýnist mér oft að athugasemdirnar séu í neikvæðari kantinum. Ef hægt er að hanka einhvern á þýðingarvillu verða menn óstjórnlega glaðir og gera athugasemdir hver um annan þveran, innihaldið skiptir minna máli.
Varð að fá útrás fyrir þessa þanka, en fer nú og kaupi barnalaug á þakið.

Alfonso sá Walt Disney-laugar fyrir fjórar evrur í búð ekki langt frá. Kannski ég misbjóði lesendum næst með myndum af okkur í busllaugunum:)

5 ummæli:

 1. Ég fékk sting í hjartað að lesa þessa frétt. Trúðu mér.

  Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með fólki sem er ekki eins og fólk er flest. Þar á meðal voru einstaklingar með Downs heilkenni. Ég var umsjónarmaður á heimilinu þeirra til nokkurs tíma. Heilbrigð og dýrmæt reynsla sem flestir ættu að verða sér út um.

  Þegar ég las fréttina þá gat ég ekki varist þeirri hugsun að einhverjir þeir einstaklingar sem ég vann fyrir hefðu aldrei átt möguleika á lífi í nútíma skimun læknavísindanna.

  Það er alveg stórfurðulegt að ekki skuli eiga sér stað meiri siðferðilegri umræða um legvatnsástungur eða hvað það er kallað. Er líf..líf? Þetta er sama grundvallar umræða og hefur legið niðri í það minnsta á íslandi um langan tíma. Það má ekki gleymast að mörg hundruð einstaklingum er aldrei gefið tækifæri og það án þess að til nokkurar skimunar komi!!

  Ég reikna með að ég hefði aldrei átt möguleika í dag. Móðir mín nýorðin 16 ára þegar hún átti mig fyrir margt löngu. Þá var viðhorf til fóstureyðinga nokkuð annað en í dag.

  Ég reikna líka með að ég ætti lítinn séns í framtíðarlandinu þar sem ég þjáist af nákvæmlega sömu krankleikum og þú Edda... meðtalið meðfæddri peningablindu. Plús að ég hef ákaflega sterka tilhneigingu til að fitna upp úr öllu valdi. Er ekki búið að finna fitugenið? Uss.. ekki möguleika!

  SvaraEyða
 2. Já, þessi umræða hefur farið fram hér á landi líka, að einhverju marki. Erfið ákvörðun að taka - að drepa gallað fólk.
  En, "tölum um" léttara hjal. Gat ekki annað en hugsað til þín í skátamessunni í morgun (sem ég heyrði NB í útvarpinu), slíkur er skátafjöldinn sem þú hefur alið af þér.
  Gleðilegt sumar, góða!
  hke

  SvaraEyða
 3. Þó má benda á að engum einstaklingi með Downs heilkenni var eitt. Hafi það verið sagt í fréttinni var það ónákvæmt orðalag. Hið rétta er að fósturvísum með Downs heilkenni var eytt. Menn geta svo haft sína skoðun á fóstur(vísa)eyðingum. Sjálfur get ég ekki sett mig í stöðu þess fólks sem lendir í þessu og fordæmt það. Það á frekar mína samúð fyrir að hafa staðið frammi fyrir mjög erfiðu vali.

  SvaraEyða
 4. Datt í hug að benda þér á þennan tengil. Þar er að finna afar sterka grein eftir móður drengs sem er "mongólíti", eins og hún kýs sjálf að orða það.


  http://www.downs.is/stories_sindri.htm

  Kv.
  Hafsteinn.

  SvaraEyða
 5. Takk þið sem gerðuð athugasemdir.Ég reyndi einhverntíma að fjalla um þetta mál en menn fóru undan í flæmingi og vildu ekki svara. Afar viðkvæmt.
  Og takk "hke" fyrir að hugsa til mín og skátanna minna í gær, kannski verður það hvati að nettu skátabloggi:)

  SvaraEyða