...væri ég drottning í Teprulandi.
Það heldur bara áfram að vera gaman í þessari Spánarferð.
Í fyrradag byrjaði að rigna og rigndi viðstöðulaust alla nóttina og fram eftir degi. Ég var niðursokkin í vinnu fyrir eyjuna eftir hádegi í gær og tók ekki eftir því fyrr en um fjögurleytið, þegar ég fór fram til að fá mér eitthvað í svanginn, að ég óð polla fram að dyrum.
Það míglak á tveimur stöðum, meðfram hurðinni og aðeins innar í herberginu og ég sótti fötur og tilheyrandi og hélt svo áfram að vera niðursokkin.
Næst þegar ég stóð upp var farið að leka á tveim stöðum í viðbót og næstum ekki hægt að segja í dropatali. Annar staðurinn var fyrir ofan rúmið mitt.
Ég fór niður og sótti Pilar sem yppti öxlum og sagði að það kæmi kona að þrífa morgun!!!!
Ég harðneitaði að sofa í þessu herbergi og á endanum sendi hún mig á pensjónat í næstu götu. Þegar ég opnaði herbergisdyrnar þar gaus á móti mér hroðaleg fúkkalykt en ég ákvað að vera jákvæð og fara í sturtu með sjampóið góða, það var svo góð lykt af því.
Þegar ég opnaði inn á bað horfðist ég í augu við heimsins stærsta kakkalakka á vaskinum, sem veifaði mér vingjarnlega með fálmurunum. Ég skellti strax aftur og og hugsaði minn gang.
Klukkan var ekki nema átta og mig langaði ekki sérstaklega að leggjast undir lakið þarna og horfa á spænska spurningaþætti í sjónvarpinu.
Ákvað að fara á kaffihús sem ég hafði séð ekki langt í burtu og var svo heppin að þetta var el Jazz Café og jamsession í gangi.
Mér fannst reyndar skrýtin lyktin, ég þekki ekki hasslykt en ég hefði ekki drukkið kókið nema af því ég sá barþjóninn opna flöskuna. Þegar hann hellti hnetum í skál handa mér var ég á báðum áttum, kannski voru þetta hasshnetur!!!
Ég svaf svo pinnstíf við ljós og þar af leiðandi næstum ekki neitt. Það var líka grunsamlegt skrjáf í fataskápnum og hundur sem gelti eins og óður fyrir utan. Best gæti ég trúað að hann hafi verið að gelta að rottu í skápnum mínum, sem sneri einmitt út að götunni.
Í morgun átti ég vakt á eyjunni og fór yfir í kaffistofuna hinum megin við götuna til að vinna. Ég færði mig fjórum sinnum um borð og gafst svo upp. Það míglak allstaðar og fyrir rest sátu allir með spenntar regnhlífar og drukku kaffið sitt.
Þegar ég var að vafra á netinu um daginn (áður en ég hafði frétt nokkuð af yfirvofandi Nóaflóði) rakst ég á "páskadíl" á Torremolinos sem var ekkert nema fyndinn. Ég sló til og fór niður eftir í dag. Ég hef ekki komið hér í 30 ár en á góðar minningar sem helltust yfir mig áðan þegar ég gekk um gamlar slóðir.
Verð hér að minnsta kosti þangað til styttir upp. Hef heldur ekki trú á að þakið mitt í Cordoba hafi haldið. Kannski á ég aftur hvergi heima.
Set inn nokkrar myndir að venju en því miður var batteríið búið í vélinni þegar allir sátu inni með regnhlífarnar. Myndirnar af lekanum eru líka ægilega óskýrar.
Takk fyrir frábært blogg! Sjampó/Cjampú sagan er "priceless". :-)
SvaraEyðaHalló, Edda.
SvaraEyðaTakk fyrir að leyfa mér að njóta skemmtunarinnar með þér - og saggans og húslekans!Þetta verður bara betra og betra!
Takk elsku krúttin mín. Nú ætla ég hinsvegar að fara í nett nostalgíukast sem trúlega fæstir hafa gaman af:)
SvaraEyða