föstudagur, 25. apríl 2008

Að missa sig komplítlí í útlöndum

Eftir vinnu í dag slóst ég í för með fóstursyninum Alfonso, sem átti stefnumót við mann á kaffihúsi hér uppi í gamla hverfi.

Það var sjötíu stiga hiti eða fimmtíu eða eitthvað og við k0mumst hvorki lönd né strönd á þröngum götunum fyrir túristahópum sem komu eins og skriðufall á móti, eltandi rauða fána eða grænar húfur.
Þegar við loksins komumst á kaffihúsið hlömmuðum við okkur niður í skugganum og ég kveikti mér í sígarettu.

Karlinn á næsta borði fór strax að hósta og starði á mig manndrápsaugnaráði. Stuttu seinna tók kerlingin hans undir. Ég þekkti strax týpurnar, arrogant frekjudallar, og sagði vði Alfonso að ef kallinn andaði út úr sér einhverju um reykingar fengi hann fingurinn.

"Þú myndir aldrei gera það," sagði Alfonso.
"Ó, jú," sagði ég.

Hóstakjöltur hjónanna hélt áfram og svo kom það:
"Það er ótrúlegt tillitsleysi að reykja þar sem fólk ætlar að borða," sagði karlinn.
Og fékk fingurinn.

Alfonso varð kríthvítur í framan þegar hjónin stóðu upp og strunsuðu í burtu en mér var alveg sama. Ég þoli ekki þennan reykingafasisma, það er nóg af stöðum fyrir reyklausa að éta á.
Á sígarettuveskinu mínu stendur Hard Boil og ég var það sannarlega í dag.

Alfonso hinsvegar hringdi og frestaði stefnumótinu við vin sinn og sagði að nú færum við í mollið.
"Mollið?"
"Þú ert greinilega í þann veginn að fá sólsting," sagð Alfonso, "og nú förum við í mollið og kaupum sundlaug á þakið."
Eins og mollið sé staður fyrir fólk sem er að fá sólsting, sérstaklega ef það hefur ímugust á mollum.
Ég tuðaði alla leiðina í mollið, en Alfonso lét sem hann heyrði það ekki.
Þegar til kom var mollið öruggasti staðurinn til vera á í Cordoba í dag.
Inni var svalt og fáir á ferli.

Við fjárfestum í Spider-man-laug á tilboði, en glætan að ég geti blásið ferlíkið upp þrátt fyrir ættir norður í Þingeyjarsýslu.
Ég ætla með laugina á restaurantið til Miguel í kvöld og efna til samkeppni meðal fastagestanna. Þeir sem eru duglegastir að blása fá verðlaun. Þeir fá að kæla sig í lauginni á þakinu einu sinni á dag.

4 ummæli:

 1. reykingafasismi..ææ hvað þú ert eitthvað sorrí...

  SvaraEyða
 2. Já, finnst þér það gæskan/gæskurinn? Gerðu athugasemd undir nafni næst, það er minna sorry.
  Kær kveðja, E.

  SvaraEyða
 3. Æ, svona fólk ætti bara að halda sig heima hjá sér. Ef það má reykja þá MÁ maður reykja, þýðir ekkert að væla yfir því. Og talandi um að vera sorrý, þá er ég mjög sorrý yfir því að það skuli vera til svona húmorslaust og forpokað lið eins og nafnlausi vinur okkar hér að ofan.

  Hvað er annars að frétta af laugarkaupum? Við erum einmitt komin með eitt stykki svoleiðis á heimilið sem hefur vakið mikla lukku þó ekki sé sólin til staðar svo hægt sé að njóta hennar almennilega.

  Hlakka til að lesa næsta blogg!

  SvaraEyða
 4. Já, þetta var rétti skátaandinn! (Ég sé að skátarnir hafa sem sagt alveg gleymst - frúin enda á kafi við að "fokka á" grandalausa ellilífeyrisþega).
  hke

  SvaraEyða